132. löggjafarþing — 37. fundur,  7. des. 2005.

Dreifikerfi Ríkisútvarpsins fyrir stafrænt sjónvarp.

188. mál
[16:04]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurrós Þorgrímsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka ráðherra fyrir greinargóð svör. Ég heyri að þegar er farið að hugleiða kostnaðinn við þetta því það er vissulega kostnaðarsamt að fara út í slíkt dreifikerfi. Í þessu sambandi er líka rétt að minna á stefnu íslenskra stjórnvalda varðandi stafrænt sjónvarp, en þar kemur m.a. fram að forsætisráðuneytið hefur gefið út skýrsluna Auðlindir í allra þágu, stefna ríkisstjórnarinnar í upplýsingasamfélagi 2004–2007. Þar segir m.a. í kaflanum um fjarskipti, með leyfi forseta:

„Stuðlað verði að uppbyggingu dreifikerfis fyrir stafrænt sjónvarp sem nái til landsins alls.“

Hið háa Alþingi samþykkti fyrr á þessu ári fjarskiptaáætlun en þar segir m.a. um stafrænt sjónvarp, með leyfi forseta:

„Allir landsmenn hafi aðgengi að gagnvirku stafrænu sjónvarpi.

Stafrænt sjónvarp um háhraðanet verði boðið árið 2005.

Boðnar verði út UHF-sjónvarpstíðnir fyrir stafrænt sjónvarp á árinu 2005.“

Eins og ég sagði í upphafi tel ég þetta mikla peninga sem væri eflaust betur varið ef þeir væru nýttir á annan hátt nema að sjálfsögðu þarf að taka til ráðstafana varðandi hinar dreifðustu byggðir landsins. Ég vil endilega að við hugum að því þar sem hér er þegar verið að dreifa á fjóra mismunandi vegu, að við tengjumst því eins og við höfum þegar gert og kannski óþarfi að bæta þar við.