132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[18:41]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Kemur ekkert í veg fyrir að nýir aðilar komi inn í þetta? Það er ekkert nema samkeppnisaðstaðan. Hvernig verður hún? (Gripið fram í.) Hvernig verður þessi samkeppnisaðstaða þegar búið verður að úthluta þessum leyfum öllum með vilyrðum um nýtingarleyfi? (Gripið fram í.) Ég er ansi hræddur um að hún verði ekki mjög björguleg. Halda menn virkilega að verið sé að velja verstu bitana af borðinu? (Gripið fram í.) Það er verið að velja auðvitað bestu bitana. Menn sækja auðvitað um það sem er best að virkja, það sem er líklegast til þess að skila arði og menn sækja um í þeirri von að þeir þurfi aldrei að borga nokkurn skapaðan hlut fyrir orkuna sjálfa. En um það snýst málið. Að því nákvæmlega eiga þeir sem eiga að sitja í þessari nefnd að huga, þ.e. hvernig þessar auðlindir verða metnar. Þeir sem koma undir þær reglur í framtíðinni verða að sæta því að orkan verður metin til fjár en ekki þeir sem fá úthlutað þessum leyfum núna.

Hv. þingmaður nefndi umhverfismatið. Þar vantar nú svolítið upp á metnaðinn. Það kom fram mjög skýrt hjá forstjóra Náttúrufræðistofnunar að verulega mikið vantar upp á að grunnrannsóknir hafi verið stundaðar á þeim svæðum þar sem menn eru að sækjast eftir því að fá að rannsaka auðlindir, sérstaklega auðlindir vegna háhitanýtingar. Hvað var okkur sagt? Að hægt væri að gera þessar rannsóknir að stórum hluta á fjórum árum ef menn fengju 25 milljónir á ári til þess. En þeir eru að fá 8 milljónir á ári sem þýðir að þessar rannsóknir taka að minnsta kosti 12 ár, þ.e. þær nauðsynlegustu sem þurfa að fara fram.

Ég held að menn ættu að huga að þessu líka ef þeir eru svo stórhuga í þessum málum, þ.e. að grunnrannsóknirnar séu þá til staðar. En það stefnir ekkert í það.