132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[22:35]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þykir mjög leitt ef hv. þingmaður hefur upplifað það sem ég sagði áðan sem hroka af minni hálfu og ég verð bara að segja, ég veit ekki hvort hann trúir því, að það var ekki ætlunin að sýna neinn hroka eða tala niður til hv. þingmanns. Við erum hins vegar að deila. Við erum í pólitískum deilum hér og ég er alveg sannfærð um það að ef hv. þingmaður, sem er ungur og hress maður, loftar út úr heila sínum þá opnar hann fyrir nýjar hugmyndir. Ég ber hag hans fyrir brjósti í þeim efnum, (Gripið fram í.) ég tel að ég hafi bara verið hér með jákvæðar ráðleggingar en engan hroka. Svona greinir okkur á. Gott og vel. Ég bið þá afsökunar ef hv. þingmaður hefur skilið orð mín svo að ég væri að tala niður til hans því að það var ekki meiningin.

Varðandi hins vegar það að ég eigi að viðurkenna einhverja aðkomu umhverfisráðuneytisins eða stofnana þess að þessum málum umfram það sem er í dag, þá ætla ég að vitna í 5. gr. laganna eins og hún er í dag, laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þar segir:

„Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar Orkustofnunar og umhverfisráðuneytis.“

Þessi aðkoma umhverfisráðuneytisins er í dag. Hverju er hv. þingmaður að breyta í þeim efnum? (BJJ: Vatnsaflið er ekki þarna inni.) Þakka skyldi iðnaðarnefnd að hún innleiddi sama ákvæði varðandi vatnsaflið og er varðandi jarðvarmann í núgildandi lögum. Ég sé því ekki hverju verið er að breyta í þessum efnum og þess vegna sé ég heldur ekki hvað það er sem ég ætti að þakka.