132. löggjafarþing — 38. fundur,  7. des. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[23:39]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það getur vel verið að hér sé verið að leggja grunninn að nýja álverinu fyrir norðan. Hæstv. ráðherra komst ekki nær því að segja sannleikann hér hreint og beint í ræðustólnum. Það getur vel verið. (Gripið fram í.) En það er gott að hæstv. ráðherra viðurkenndi að henni er hér falið verulegt vald.

Virðulegur forseti. Það vald er sambærilegt því að við hefðum afhent sjávarútvegsráðherra heimild til að veita mönnum vilyrði fyrir kvótanum í sjónum við strendur Íslands og ákveðið síðan að skipa nefnd sem ætti að setja reglur um það sem tækju gildi eftir á. Þannig stendur maður náttúrlega ekki að hlutum. Þannig fer maður ekki með sameiginlegar auðlindir landsmanna. Fyrst setjum við reglurnar um hvernig eigi að úthluta, hvernig eigi að tryggja almannahagsmuni, jafnræði, samkeppnissjónarmið og aðra slíka hluti og síðan felur löggjafarvaldið framkvæmdarvaldinu að framkvæma þær reglur. En við gefum ekki auðlindirnar fyrst og setjum reglurnar svo því þá er einfaldlega ekki til neins að setja reglurnar.