132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur.

18. mál
[13:28]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég stend einungis upp til að fagna því að þetta mál sé komið svona vel á veg, og sérstaklega vil ég láta í ljósi ánægju yfir því að um afgreiðslu þess virðist hafa tekist mikil samstaða. Það er samstaða um málið í efnahags- og viðskiptanefnd og ég tel að málið hafi batnað í meðferð nefndarinnar. Þetta er gott dæmi um hvernig þingið getur tekið á einstökum málum, einstökum réttlætismálum eins og þessu. Ég held að það sé þannig með þessa löggjöf sem nú er verið að breyta að mjög mörgum okkar sveið þetta óskaplega og fannst þetta mál mjög óréttlátt. Þess vegna var málinu hreyft á sínum tíma en ég var á þeim tíma fyrsti flutningsmaður þess og með mér voru flutningsmenn úr öllum stjórnmálaflokkum. Nú hefur það tekist, eftir mikla og góða vinnu efnahags- og viðskiptanefndar sem ástæða er til að þakka fyrir að málið er komið hingað inn í Alþingi og um það er mikil samstaða.

Þess vegna er ástæða til að ætla að því verði lokið núna vel fyrir jól og að það verði að lögum. Ég hef orðað það þannig að með því að við breytum þessum lögum muni margir sem ella hefðu átt heldur slæma daga fram undan eiga gleðileg jól. Ég held að ástæða sé til að fagna því og árétta það sem ég var að segja að þetta mál er eitt dæmi um það hvernig þingið getur tekið á málum. Hér var um að ræða þingmannamál sem var flutt á sínum tíma, mál sem efnahags- og viðskiptanefnd hefur síðan unnið að á mjög sjálfstæðan og vandaðan hátt. Þessi vinnubrögð eru til fyrirmyndar. Ég hefði að vísu kosið að málið hefði verið afgreitt síðasta vor en mér sýnist hins vegar málið hafa batnað síðan þá þannig að ég iðrast þess ekki, heldur fagna ég því að málið sé komið svona vel á veg og að það verði samþykkt núna fyrir jólin.