132. löggjafarþing — 39. fundur,  8. des. 2005.

Verslunaratvinna.

345. mál
[14:21]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er alveg guðvelkomið að taka þessa umræðu ef hv. þm. Pétur H. Blöndal óskar eftir því að ræða um gildi stéttarfélaga á þessum næstsíðasta degi þingsins fyrir jól. Það er alveg sjálfsagður hlutur. Hann hlýtur að hafa einhverja sérstaka kvöð og helsi af því að fólk taki þátt í stéttarfélagsvinnu og að fólk greiði til stéttarfélaga jafnvel þótt það sé ekki félagar í viðkomandi félögum. Ég vil benda hv. þingmanni, og öllum sem orð mín heyra, á að allir, hvort sem þeir eru í stéttarfélaginu eða standa utan þess, njóta þeirra kjara sem stéttarfélagið hefur náð fram í sínu starfi. Gildir þá einu hvort um er að ræða lífeyrisréttindi, veikindarétt eða önnur kjör sem launafólk býr við.