132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[13:43]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta sem helst nú varast vann, varð þó að koma yfir hann. Nú kom hér upp hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og las samkomulagið sem vitnað er til í nefndarálitinu. Og nákvæmlega eins og ég hef verið að sýna fram á í nokkrum ræðum í dag er þar ekki að finna stafkrók um að ekki megi breyta því frumvarpi sem hér er. Um hvað er samkomulagið eins og þar kemur fram? Hv. þingmaður las það upp og hann sagði orðrétt að minnsta kosti efnislega svona: Samkomulag er um að samþykkja sérlög. Ég er að taka þátt í því. Ég er að taka þátt í því að uppfylla það samkomulag ef það gleður hv. þingmann. En ég er fyrst og fremst að gera skyldu mína sem alþingismanns, að hafa skoðanir og sannfæringu og fara eftir henni. En það er hins vegar alveg ljóst að skilninginn sem hv. þingmaður leggur í þetta samkomulag er ekki að finna í textanum. Samkomulagið er um að gera sérlög og það er það sem við erum að gera hér. Það stendur ekkert hvernig þau sérlög eigi að vera vegna þess að þá hefðu þau væntanlega verið samþykkt þar í viðhengi og okkar afgreiðsla hefði verið algerlega óþörf. Við gætum þá raunverulega hætt störfum og búið til stimpla til að klára þessi mál sem hv. þingmaður vill að sé lokið úti í bæ. En þetta er mergurinn málsins. Hér er verið að samþykkja sérlög um starfsmannaleigur sem Samfylkingin hefur barist fyrir sl. tvö og hálft ár, sem verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir en sem atvinnurekendur og sjálfstæðismenn hafa móast gegn. En sem betur fer urðu þeir að lúta í gras í því máli.