132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[15:27]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórn Íslands, svo ég fari enn í gegnum það, stendur fyrir samkomulagi milli tveggja aðila, við getum kallað þá A og B. Samkomulag getur verið um hvað sem er. Þetta geta verið hvaða aðilar sem er. Við erum sammála um að þegar ríkisstjórnin gerir samkomulag við aðila vinnumarkaðarins þá hefur það gríðarlega þýðingu fyrir efnahagslífið. Það er þríhliða samningur sem byggist á lágmarkssamnefnara sem báðir aðilar geta verið sammála um.

Að sjálfsögðu, virðulegi forseti, geta menn haft hvaða skoðun á því sem er. Við getum fordæmt samkomulagið. Enginn bannar mönnum það. Menn geta haft allt aðra skoðun á samkomulaginu. Ég bendi aðeins á að til framtíðar hlýtur að vera þýðingarmikið, a.m.k. í augum þeirra sem telja að slíkt samkomulag geti leitt til farsældar eins og saga Íslands segir skýrt til um, að aðilar málsins geti treyst því að það standi, að Alþingi fari ekki að halla á annan aðilann, hvort sem það er A eða B. Menn verða að geta treyst því að samkomulagið standi. Breytingartillögur sem kunna að koma fram munu yfirleitt halla á annan aðilann. Það getur verið á hvorn veginn sem er. Ég vara við því að Alþingi geri það. Ég vara við því. Það mundi grafa undan getu stjórnvalda til að stuðla að farsælum lausnum í slíkum málum.