132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Fjarskiptasjóður.

191. mál
[16:02]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að nota þetta form til að gera grein fyrir fyrirvara mínum sem snýr að áhyggjum mínum af því sem mér fannst hv. þingmaður ekki víkja að. Það er varðandi NMT-kerfið eða annað sambærilegt kerfi sem ætlað er að þjóna fiskiskipaflotanum eða skipaflotanum umhverfis landið. Mér finnst ekki nægjanlega tekið á því hvernig með slíkt fyrirkomulag verður farið á komandi árum, hvorki í frumvarpinu um ráðstöfun símafjárins né í þessu frumvarpi Við höfum fengið fregnir af því að menn vilji leggja niður NMT-kerfið án þess að neitt sé komið í staðinn og ég óttast það svolítið að við munum standa frammi fyrir því, kannski af því þetta er ekki nógu fínt markað hjá okkur í þessum lögum um fjarskiptasjóðinn, að upp geti komið sú staða að enginn sérstakur sækist eftir því að þjónusta skipaflotann. Minn fyrirvari snýr eingöngu að þeim áhyggjum mínum.