132. löggjafarþing — 40. fundur,  9. des. 2005.

Hollustuhættir og mengunarvarnir.

314. mál
[17:29]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hv. formaður umhverfisnefndar lét í veðri vaka í framsöguræðu sinni að þeim sem hefðu einhverjar efasemdir um þetta mál, það var gefið í skyn, væri ekki annt um öryggi barna. Mér finnst svona málflutningur mjög ómerkilegur og vera hv. þingmanni í rauninni til mikillar skammar að flytja slíkt úr ræðustóli Alþingis. Sérstaklega þegar maður skoðar vinnubrögð hv. formanns nefndarinnar. Hann gat ekki lesið umsagnir, hann var of stór maður til þess, frú forseti. Það var ekki hægt að fara í gegnum umsagnir. Þetta er ótrúlegt.

Ég er hérna með bunkann með mér og mér er skapi næst að lesa upp úr honum vegna þess að það er ekki hægt að fara í gegnum þetta á nefndarfundum. Þetta er ekki endilega dónaskapur gagnvart þeim sem hér talar, alls ekki, heldur gagnvart því fólki sem sendir inn umsagnir. Hvað á þetta að þýða? Ég botna ekkert í svona vinnubrögðum, að segja fólki að senda umsagnir. Hér er ein að austan, frá Austurlandi, og hún er ekki lesin. Um umsögn frá Neytendastofu var aðeins fjallað lítillega. Það er ekkert gert með umsögn frá Akureyri. Síðan eru umsagnir úr Kópavogi og Hafnarfirði, það er ekkert gert með þær og ein frá mínum slóðum, Norðurlandi vestra. Mér finnst það dónaskapur, frú forseti, að líta ekki yfir þetta á fundum, að lesa ekki gegnum það og fara yfir þessi mál. En það velur hver sín vinnubrögð og líka málflutning. Mér finnst vera fyrir neðan allar hellur að koma hér og hafa ekki tíma til að renna gegnum pappíra og halda fundi og segja svo að þeim sem hafa einhverjar efasemdir um frumvarpið sé ekki annt um öryggi barna.

Að vísu kom einn gestur á fundinn í flugumynd og það var umræddur Sigurður Óli Kolbeinsson. Hann lét í ljós afstöðu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ég hef rætt við marga sveitarstjórnarmenn í mínu kjördæmi og það verður að segjast eins og er að þeir hafa miklar efasemdir um þetta, mjög miklar, vegna þess að verið er að leggja mikinn kostnað á sveitarfélögin og senda reikninga héðan úr Reykjavík frá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni og umhverfisráðherra. Og þessir reikningar koma inn á borð hjá t.d. sveitarfélaginu Skagafirði, en þeir hafa örlitla reynslu af því að framfylgja þeim reglum sem verið að koma á og hafa slegið á að þetta séu um 800 þús. kr. Mér finnst það vera svolítil upphæð. Þetta er kannski lítið mál í Reykjavík, ég veit það ekki, en sýnir kannski afstöðu Sjálfstæðisflokksins til landsbyggðarinnar að það skipti engu máli að senda feita reikninga. En þegar maður hefur rætt við sveitarstjórnarmenn, suma jafnvel í flokki hv. framsögumanns, þá furða þeir sig á þessum vinnubrögðum. Hvers vegna er verið með þessi flausturslegu vinnubrögð, frú forseti? Jú, það er vegna þess að umhverfisráðherra gaf út reglugerð og hún er hér. Þetta er reglugerð nr. 607 frá í júní í sumar en hún hafði enga lagastoð og nú er verið að redda því hér. Á ekkert að kostnaðarmeta það bara til að bjarga umhverfisráðherra frá einhverri skömm að vera með reglugerð sem á að taka gildi um áramótin og hefur enga lagastoð? Mér finnst þetta ekki vera vinnubrögð sem við eigum að viðhafa hér. Ég vona að þó hv. formaður nefndarinnar hafi hlaupið á sig í þessu máli þá megum við ekki búast við þvílíkum vinnubrögðum á næstu missirum, frú forseti.