132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Eldi á villtum þorskseiðum.

185. mál
[13:02]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Þorskurinn hefur verið ein mikilvægasta fisktegundin við Ísland. Segja má að Ísland hafi síðustu tvær aldir að miklu leyti byggst upp í kringum veiðar og verkun á þorski. Hér við land höfum við horft fram á að þorskafli dvínaði og við norðanvert Atlantshaf hafa þorskstofnar hrunið. Sem betur fer hafa menn fundið vörn gegn því í vaxandi þorskeldi. Ég held að við séum öll sammála, sem höfum tekið þátt í umræðum um það á hinu háa Alþingi, að þorskeldi sé vænlegt til framtíðar. Hins vegar eru margvísleg tæknileg vandamál enn óleyst varðandi þorskeldi. Það er nokkuð erfitt að koma þorskseiðum upp þótt klakið sjálft sé auðvelt. Það er t.d. erfitt að ráða bót á þeirri sterku tilhneigingu þorsksins að éta hver annan í eldinu.

Menn hafa velt því fyrir sér hvort hægt sé að fara aðrar leiðir í upphafi. Sú umræða spratt af þeirri staðreynd að merkir fiskifræðingar í hópi okkar fyrstu vísindamanna á því sviði, t.d. Árni Friðriksson, komust að raun um að sums staðar á landinu, þar sem þorskklak var á skyldum svæðum og sérstakar landfræðilegar aðstæður ríktu, var nánast hægt að ganga að stórum flekkjum þorskseiða. Þetta átti t.d. við í Húnaflóa og innarlega í Ísafjarðardjúpi. Sú hugmynd spratt því að fara þá leið að veiða úr þessum flekkjum og ala þau seiði upp. Þetta hefur verið gert síðustu árin á Nauteyri við Ísafjarðardjúp. Ég hef sjálfur skoðað það og hrifist af því hvernig menn hafa leyst ákveðin vandamál sem því fylgdu. Ég tel ekki að nein hætta sé búin náttúrulegu seiðauppeldi. Við vitum að núllseiðin, þ.e. seiði sem ekki eru orðin eins árs, fargast í stórum stíl af náttúrunnar völdum. Um 95% þeirra deyja drottni sínum áður en þau ná fyrsta hausti. Ég held þess vegna að töluverðar veiðar á slíkum seiðum mundu ekki leiða til stórskaða eins og stundum hefur mátt skynja á sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar.

Ég tel líka að þessi aðferð gæti orðið grunnur að góðum kynbótum sem sannarlega þarf að fara í í framtíðinni. Þarna þarf að fá fram þá einstaklinga úr mjög stóru mengi sem eru mest hraðvaxta. Ég spyr því hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem hefur nokkra þekkingu á þessari starfsemi, hvernig ráðuneytið meti reynsluna af veiðum villtra þorskseiða af núllárganginum í Ísafjarðardjúpinu og áframeldinu annars staðar og í öðru lagi hvort ráðherra telji ekki rétt að heimila enn frekari veiðar slíkra seiða til að ala til manneldis. Ég held að það gæti hentað mjög vel samhliða því að byggja upp þorskeldi á grundvelli kynbóta.