132. löggjafarþing — 45. fundur,  18. jan. 2006.

Rækjustofninn í Arnarfirði.

354. mál
[13:40]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Það má segja að sjávarþorpið Bíldudalur sé mjög þjakað af kvótakerfinu og þarna í þessu litla þorpi í Arnarfirði kristallast vitleysa kvótakerfisins. Það gerir það í nýtingarstefnu og ég hefði haldið að þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra kæmi vestan af fjörðum þá gæti hann breytt hlutunum í þá átt sem hann hefur boðað undanfarin ár og jafnvel áratugi, að það ætti að breyta einhverju í kvótakerfinu til hagsbóta fyrir fólkið sérstaklega á Vestfjörðum. Ég hefði haldið að hann mundi líta á ástandið þar með gagnrýnum huga og breyta því sem augljóslega er vitleysa. Þetta kristallast nú á þessu ári í hvernig ástandið er í nýtingarstefnu hæstv. sjávarútvegsráðherra á Vestfjörðum. Hvernig gerir það það? Jú, það er gefinn út kvóti sem er 300 þúsund tonn í rækju í upphafi síðasta árs (Gripið fram í.) nú, 3000 tonna kvóti. Síðan er hann aukinn enn og aftur í ljósi einhverra niðurstaðna. En í lok ársins er rækjan einfaldlega búin og allar veiðar stöðvaðar. Þrátt fyrir alla þessa ráðgjöf og ég segi nú, hvað hefði orðið um þetta ef það væri einhver jafnstöðuafli? En þarna er búið að gera athuganir æ ofan í æ og menn komast að því að rækjan er horfin þrátt fyrir að hæstv. ráðherra hafi lagt í einhverja tilraun þarna vestur á fjörðum, upp á 70 millj. kr., í að fóðra fiskinn sem er að éta upp rækjuna. Til að koma í veg fyrir að þorskurinn og ýsan éti upp rækjuna er lögð loðna fyrir þorskinn. Ég segi það að Bakkabræðrum norðan úr Fljótum í Skagafirði hefði ekki dottið í hug önnur eins vitleysa. Þeir hefðu auðvitað farið og reynt að veiða fiskinn, þeim hefði ekki dottið þetta í hug. En þetta dettur Sjálfstæðisflokknum í hug, að fara að fóðra afræningja sem eru að éta upp rækjuna. Þetta er hrein og klár della, það sjá allir.

Hvers vegna er þorskurinn ekki veiddur þarna? Ástæðan er einkum sú að það er ekki til kvóti og enn fremur vegna þess að fiskurinn er lítill og ef einhver ætti kvóta væri miklu nær að verja honum í að veiða stóran fisk sem maður fær meira verð fyrir. Ég er á því og ég vonast til þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra skoði þetta dæmi í alvöru og það verði til þess að hann breyti þessari nýtingarstefnu. Þetta getur ekki gengið svona lengur. Við sjáum það að allar bætur á þessari vitleysu gera einfaldlega vont verra.