132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Siglingastofnun Íslands.

375. mál
[13:50]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Í sjálfu sér þarf ekki að hafa mörg orð um frumvarpið. Það er afskaplega auðvelt að fjölga í siglingaráði og fá þar inn fulltrúa skemmtibátaeigenda og eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra er full ástæða til þess. Ég vil því aðeins lýsa yfir stuðningi við það. Við höfum orðið vör við það á síðustu árum í kjölfar aukinnar velferðar hjá þjóðinni að hún leitar sér stöðugt að meiri og fjölbreyttari frístundaáhugamálum. Eitt af því eru skemmtisiglingar. Skemmtibátum hefur fjölgað mjög ört að undanförnu út um allt land. Þetta eru ekki neinar litlar fleytur þó sumar séu sannarlega það, svona rómantískir litlir segl- eða árabátar. En við erum líka að tala um kraftmikla báta sem fara hratt yfir og langt út og þess vegna þarf að gæta fyllsta öryggis. Því er mjög mikilvægt að raddir þeirra heyrist í siglingaráði sem vélar um siglingar í kringum landið og þess vegna lýsi ég yfir stuðningi við þetta ágæta frumvarp.