132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Stuðningur við einstæða foreldra í námi.

16. mál
[15:13]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem í ræðustól til að lýsa ánægju minni með þessa þingsályktunartillögu. Um leið furða ég mig á því að ekki hafi fyrir löngu verið skipaður svona starfshópur og þessi mál afgreidd. Það koma fram í ágætri greinargerð með tillögunni margar athyglisverðar upplýsingar, t.d. um fjölda einstæðra foreldra í námi. Þetta eru kannski ekki margir einstaklingar en þó fleiri en ég hugði. Ég verð að segja að það er ofboðslega ósanngjarnt að ef einhver hefur eignast barn og er einstætt foreldri skuli sá hinn sami ekki geta aflað sér þeirrar menntunar sem viðkomandi hefur áhuga á. Það er mjög óréttlátt.

Mér finnst það í raun spurning um grundvallarréttindi að þessu fólki sé gert jafnhátt undir höfði og öðrum og samfélagið eigi að hlaupa undir bagga og aðstoða þetta fólk til að það geti stundað nám, bæði með fjárhagslegum og félagslegum stuðningi. Hér hefur til að mynda verið talað um leikskóla, húsnæðismál og annað þess háttar sem skiptir mjög miklu máli.

Ég lýsi yfir stuðningi við þessa þingsályktunartillögu. Ég er sjálfur í menntamálanefnd og býst við því að hún verði send þangað. Ég er reyndar aðeins áheyrnarfulltrúi en ég skal ekki láta mitt eftir liggja til að reyna að veita þessu góða máli brautargengi.