132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Umræða um störf þingsins.

[10:58]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að gera athugasemdir við það fyrirkomulag sem er hér á fundinum vegna þess að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kemur með algjörlega nýtt mál undir liðnum Athugasemdir um störf þingsins þegar tíminn var liðinn, þær 20 mínútur sem ætlaðar voru til þeirrar umræðu. Og eins og hann gat um, virðulegi forseti, ætlaði hann ekki að ræða um það sem var til umræðu, um loðnuna, heldur koma með algjörlega nýtt mál.

Það sem ég vil gera sérstakar athugasemdir við, virðulegi forseti, er að meðal þingflokka á Alþingi er það heiðursmannasamkomulag í gildi að formenn þingflokka láti aðra formenn vita ef menn ætla upp með mál um störf þingsins. Það var ekki gert í þessu tilviki, virðulegi forseti, með það mál sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson bar hér upp. Mér finnst það ótækt, virðulegi forseti, að það sé svo klippt á það um leið og hv. þm. Sigurður Kári var búinn að hv. þm. Mörður Árnason, sem hefur með þetta mál að gera fyrir hönd þingmanna Samfylkingarinnar í menntamálanefnd, geti rætt þetta mál og síðan sé umræðu slitið. Það gengur ekki.

Ég geri athugasemdir við þessi tvö atriði, virðulegi forseti. Tíminn var liðinn þegar hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fékk að koma upp með erindi sitt og formenn annarra þingflokka voru ekki látnir vita um það þannig að ekki var hægt að undirbúa menn eins og hv. þm. Mörð Árnason til að vera á staðnum vegna þess sem hér átti að bera upp.