132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Umræða um störf þingsins.

[11:20]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þarf ekki mörg fleiri orð um þetta mál. En hv. þm. Hjálmar Árnason hefur ekki rétt fyrir sér þegar hann segir hér úr ræðustóli að hv. formaður menntamálanefndar hafi tilkynnt nefndinni það í morgun að hann mundi fara hér upp undir liðnum athugasemdir um störf þingsins núna til þess að ræða það sem fór fram á fundi nefndarinnar í morgun. Það gerði hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson ekki. Hann talaði utan að því að auðvitað mætti hugsa sér eða eitthvað almennt um það að þetta varðaði störf þingsins en hann tilkynnti nefndinni ekki að hann mundi fara hingað upp og ræða þessi mál hér svo að við vorum allsendis óvitandi af því.

Það sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kallar í þessum ræðustóli vitleysu, frú forseti, það er sjálfsögð krafa stjórnarandstöðuþingmanna í menntamálanefnd um að fá upplýsingar um það hvað það er sem hæstv. ráðherrar vilja leyna þjóðina varðandi það mál sem hér á að fara á dagskrá í næstu viku. Ég ítreka nú þær óskir mínar til hæstv. forseta og bið hana að hugleiða það í alvöru til þess að allir þingmenn menntamálanefndar geti verið viðstaddir þá umræðu sem verður mikilvæg, 1. umr. um frumvarpið um Ríkisútvarpið, að fresta henni og hafa hana ekki á dagskrá hér á mánudaginn heldur þegar hv. menntamálanefndarþingmenn geta verið viðstaddir.