132. löggjafarþing — 47. fundur,  20. jan. 2006.

Kjaradómur og kjaranefnd.

417. mál
[15:16]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svo vildi til að hv. þm. Pétur H. Blöndal átti hér orðastað við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og fór fram á að allar hennar tekjur og greiðslur, ráðstöfun ferðapunkta, ferðakostnaður og annað slíkt væri opinbert. Hann og taldi afar nauðsynlegt að allar greiðslur og öll laun lægju fyrir. Ég tek alveg undir með hv. þingmanni því ég held að það eigi að vera opinbert hvað við höfum í laun og að það eigi líka að vera opinbert hvað stéttir hafi í laun almennt í landinu þannig að menn sjái laun og launaskrið en stundi ekki þann feluleik sem núna á sér stað með því að reyna að fela hvað raunverulega sé að gerast á markaðnum.

Mér þykir hins vegar leitt að hv. þingmaður skuli vera tvísaga í málflutningi sínum, þ.e. að leggja annars vegar til að birt séu öll laun eins þingmanns og annarra en leggja svo fram frumvarp um að fela launakjör í landinu.