132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[20:21]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil leggja nokkur orð í belg við 1. umr. um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf. Við höfum hér í dag farið yfir frumvarpið og fram hafa komið mismunandi skoðanir á því hjá stjórn og stjórnarandstöðu hvort það skipti einhverju máli hvaða rekstrarform sé á Ríkisútvarpinu. Ég og Vinstri hreyfingin – grænt framboð teljum að það skipti máli hvaða rekstrarform er á Ríkisútvarpinu. Því höfum við lagt fram annað frumvarp til laga um breytingu á núverandi útvarpslögum um Ríkisútvarpið og viljum styrkja Ríkisútvarpið í því rekstrarformi sem það nú býr við. Við gerum okkur grein fyrir því að innan útvarpsins hefur verið togstreita og ákveðið skipulag þar hefur hugsanlega tafið framþróun í dagskrárgerð og möguleika útvarpsins á að þróast. Við leggjum því til að núverandi útvarpsráð verði lagt af en í stað þess verði lýðræðið innan stofnunarinnar eflt og komi dagskrárstjórn í þess stað.

Það er mjög mikilvægt að við eigum áfram öflugan almannamiðil, almannamiðil eins og Ríkisútvarpið er í dag, einn öflugasti fjölmiðill á Íslandi. Nú er verið að vinna að því að móta lagaumhverfi um fjölmiðlun á Íslandi. Þar sem Ríkisútvarpið er hluti af þeirri heild teljum við óráðlegt að hreyfa við lögum um Ríkisútvarpið núna algjörlega án samhengis við þá umræðu sem er að fara í gang á þeim vettvangi. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði viljum að Ríkisútvarpið verði hluti af þeirri heild. Í það minnsta viljum við — og það hlýtur að vera lágmarkskrafa — að ekki verði farið að breyta lögum um það fyrr en eftir að sú umræða hefur farið fram og settar hafa verið fram mótaðar skoðanir þannig að við getum séð hvernig Ríkisútvarpið fellur inn í þá mynd. Sem betur fer hefur náðst samkomulag og samstarf um að allir þingflokkar standi að þeirri vinnu. Við eigum eftir að sjá hvernig það kemur út.

Ég vara við þeim flumbrugangi að stíga þungt til jarðar á þessum tímapunkti. Við ættum að vinna að hugsanlegum breytingum á Ríkisútvarpinu samhliða því eða a.m.k. þegar við sjáum hvað kemur út úr fjölmiðlafrumvarpinu sem verið er að móta.

Núverandi ríkisstjórn með þátttöku Framsóknarflokksins — það er ekki hægt að hlífa honum í því máli — er haldin þeirri áráttu að hlutafélagavæða eða selja þær ríkisstofnanir sem hægt er. Það er hin ráðandi pólitíska sýn — horft er fram til þess rekstrarforms sem hlýtur að vera lokatakmarkið, þ.e. að einkavæða þessar stofnanir ríkisins. Þegar verið er að tala um að ekki sé um einkavæðingu að ræða heldur sé verið að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi í eigu ríkisins þá er það aðeins eitt skref á þeirri leið að einkavæða eða selja þessa mikilvægu stofnun okkar. Þannig hefur verið unnið og þetta er stefna ríkisstjórnarinnar, sú krafa er undirliggjandi og sú pólitíska skýra sýn er undirliggjandi. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum henni algjörlega ósammála og þess vegna erum við m.a. hér á þingi.

Það er líka mikilvægt að hafa þessa framtíðarsýn ljósa og reyna að sporna við. Það er líka mikilvægt að styrkja lýðræðislega stjórnunarhætti og sjálfstæði Ríkisútvarpsins, bæði fjárhagslega og pólitískt. Ég tel að pólitísk afskipti af Ríkisútvarpinu hafi oft og tíðum verið fullmikil og að útvarpsráð hafi með ýmsum hætti haft afskipti af innri málefnum Ríkisútvarpsins sem það hefði mátt láta vera. En ef frumvarp til laga um Ríkisútvarpið hf. verður að veruleika verður sú stofnun miklu pólitískari en hún er í dag. Í stað þess að styrkja lýðræðislega stjórnunarhætti og koma fleirum að ábyrgð innan stofnunarinnar mun útvarpsstjóri, eins og aðrir forstjórar þeirra stofnana sem hafa verið hlutafélagavæddar, verða allsráðandi hvað varðar mannaráðningar og í raun allsráðandi varðandi rekstur stofnunarinnar. Sá útvarpsstjóri mun heyra beint undir ráðherra sem hefur það hlutverk bæði að ráða og reka. Pólitískir straumar gætu því orðið mun þyngri en nú er og pólitísk afskipti af innri málefnum stofnunarinnar miklu sterkari. Það kemur ekki beint fram í frumvarpinu en þannig er það.

Það sem hefur háð Ríkisútvarpinu er fjárhagsvandi stofnunarinnar. Það er ekki einsdæmi að sú stofnun hafi liðið fyrir of naumt skömmtuð fjárframlög héðan frá hinu hv. Alþingi heldur á þetta við mjög margar ríkisstofnanir sem eru alveg að sligast undan þeim sparnaðarkröfum sem gerðar eru og án þess að nokkur breyting sé gerð á þjónustuhlutverki þessara stofnana. Mjög margar opinberar stofnanir eiga því í erfiðleikum með að uppfylla hlutverk sitt. Þetta er líka ein af þeim mörgu leiðum sem farnar eru til að brjóta hinn opinbera rekstur niður í það ástand að gerð er krafa um annaðhvort greiðsluþátttöku þeirra sem nota þjónustuna, þ.e. þjónustugjöld, skólagjöld eða sjúklingaskatta, það fer eftir því hvar þjónustan liggur, eða þá að dregið er úr þjónustunni og upp kemur sú krafa að stofnunin standi sig betur. Það sé þá ekkert annað að gera en að hlutafélagavæða hana, selja hana eða koma henni í annan rekstur. Það er því spurning um hvort ástandið í þjóðfélaginu, það spennuástand sem nú ríkir sem leiðir af sér aðhaldskröfur í opinberum rekstri, hvort það er hin raunverulega ástæða eða hvort hún er ekki tekin fegins hendi til að þjarma að opinberum stofnunum til að geta síðan með auðveldari hætti komið þeim úr beinum opinberum rekstri. Þetta sjáum við með Háskóla Íslands, hvernig samkeppnisstaða hans gagnvart Háskólanum í Reykjavík er orðin, hvað þetta misvægi er orðið mikið og krafan um að eitthvað þurfi að gera við Háskóla Íslands í staðinn fyrir að skoða hvernig gert er upp á milli þessara stofnana í rekstrarlegu tilliti.

Hér kom fram, hæstv. forseti, að ef við vildum ekki breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins væru þeir sem vildu halda núverandi rekstri að festast í fortíðinni. Ég tel að við sem viljum halda núverandi rekstrarformi séum að horfa til reynslu annarra þjóða og reynum að gera okkur grein fyrir því hvaða öfl liggja þarna að baki og reynum að horfa blákalt á þá staðreynd að þetta ferli sem byrjar núna með hlutafélagaforminu er bara spor í lengra ferli einkavæðingar núverandi ríkisstjórnar eða þeirra afla sem vilja að fjármagnið ráði frekar en ríkisreknar stofnanir og almannaheill. En það er ótvírætt að hlutverk Ríkisútvarpsins er margþætt og ég get fyrir mitt leyti tekið undir 3. gr. í II. kafla í frumvarpinu um útvarpsþjónustu í almannaþágu og þá þætti sem þar eru taldir upp. Þetta eru þættir sem eru erfiðir á samkeppnismarkaði og því getur Ríkisútvarpið, ef það á að standa undir nafni, ekki eða illa fallið að samkeppnismarkaði miðað við þá upptalningu sem hér er og við gerum kröfu til sem stofnunar.

Varðandi hlutverk útvarpsstjóra og þess hlutverks sem bíður hans að hafa þau völd að fara með ráðningarsamninga einn allra starfsmanna, þar með að semja um kaup og kjör því þá yrði stofnunin komin undan ákvæðum um opinbera kjarasamninga, þá hefur það gerst á undanförnum árum og kom berlega fram í úrskurði Kjaradóms varðandi laun og launahækkanir m.a. þingmanna sem verið var að afnema rétt fyrir helgi, að mikið launaskrið hefur orðið hjá opinberum stofnunum, ekki hjá lægst launaða fólkinu heldur hjá stjórnendum. Með því að hlutafélagavæða hverja ríkisstofnunina á fætur annarri og koma henni undan ákvæðum um laun og kjör opinberra starfsmanna og undir ákvörðun forstjóra til að semja um laun starfsmanna, þá hefur þessi þróun farið á flot. Ef Ríkisútvarpið bætist nú enn í þann hóp stofnana sem verða hlutafélagavæddar þá er þessi sama ríkisstjórn sem skildi ekkert í niðurstöðum og úrskurði Kjaradóms, hvernig hann gat orðið — það launaskrið sem er verða hjá stjórnendum í landinu stuðlar að því að viðhalda þessu launaskriði hjá stjórnendum stofnana í opinberum rekstri en undir því rekstrarformi sem býður upp á það. Ég held því að hæstv. ríkisstjórn ætti nú að skoða málið í þessu samhengi líka, að það sem hún hneykslast á og reynir að kveða niður, ýtir hún svo undir með því að breyta rekstrarformi stofnunarinnar.

Við gerum miklar kröfur til Ríkisútvarpsins og það þarf sannarlega að efla innlenda dagskrárgerð. Efla þarf málskilning og verndun íslenskrar tungu í gegnum Ríkisútvarpið. Það hefur Ríkisútvarpið reynt að standa vörð um en hefur því miður orðið að skera niður dagskrárliðinn Íslenskt mál, sem var hér til nokkurra tugi ára ásamt fleiri þáttum sem hafa verið menningartengdir, fyrir utan mikinn hug og áhuga margra starfsmanna Ríkisútvarpsins að standa sig betur í þessum málum en hafa ekki haft tækifæri til vegna þess að ekki er fjármagn til.

Ég hef áhyggjur af Rás 2 ef frumvarpið verður að lögum þar sem Rás 2 gæti flokkast undir það að vera inni á samkeppnismarkaði. Rás 2 heldur úti léttari dagskrá en Rás 1. Ég tel einboðið að það verði með fyrri verkum þessa hugsanlega nýja útvarpsstjóra eða stofnunar að leggja niður Rás 2. Mér finnst það skína í gegn og ef maður horfir blákalt á að stofnunin eigi eingöngu að sinna því sem ekki truflar samkeppni við aðrar stöðvar.

Aðeins nokkur orð um tekjustofna Ríkisútvarpsins hf. eins og lagt er til í frumvarpinu. Lagt er til að þetta verði nefskattur. Ég óska eftir að hæstv. menntamálanefnd fari mjög vel yfir það. Ég tel þetta ósanngjarnan skatt og legg til að hæstv. menntamálanefnd fari vel yfir frumvarp Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs þar sem við leggjum til að þetta fylgi íbúðum og teljum að þar náum við miklu réttlátari skattheimtu en að hafa þennan hugsanlega nefskatt.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri. En mun fylgjast með framvindu málsins gegnum fulltrúa okkar í menntamálanefnd. Ég vona að menntamálanefnd taki sér góðan tíma til að fara yfir frumvarpið og fresti afgreiðslu málsins þar til nýtt frumvarp um fjölmiðla hefur litið dagsins ljós eða öllu frekar, taki þetta frumvarp inn í þá umræðu.