132. löggjafarþing — 49. fundur,  23. jan. 2006.

Ríkisútvarpið hf.

401. mál
[22:37]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Er hv. þingmaður í fullri alvöru að halda því fram að þetta sé stefna Samfylkingarinnar? Ég vek athygli á að talsmaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Mörður Árnason, talaði sömuleiðis fyrir sjálfseignarfyrirkomulaginu fyrr í dag. Nú kemur formaðurinn, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, og upplýsir þingheim og þjóð um þessa stefnu Samfylkingarinnar og að þeirri stefnu hafið verið unnið í mörg ár að Ríkisútvarpið skuli vera sjálfseignarstofnun vegna þess hvernig stemmning sé í Sjálfstæðisflokknum, vegna þess að það er einhver stemmning í Sjálfstæðisflokknum. Það eru einu rökin sem hér komu fram.

Ég verð að segja eins og er að ég er nú bjartsýnn maður að eðlisfari en ég á ekki von á því að við verðum í ríkisstjórn um alla eilífð. En það er gott að fá að heyra það frá Samfylkingunni að það er eitthvað sem menn ætla. En það eru einu rökin því að svo sannarlega hefur hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir búið til hlutafélög úr hinum og þessum fyrirtækjum og sérstaklega er áberandi Félagsbústaðir hf., sem er hlutafélag um félagslegt húsnæði. Ég veit ekki til þess að það hvarfli að neinum að selja það fyrirtæki.

Það liggur þá fyrir og hefur verið ítrekað af formanninum og komið fram hjá talsmanni flokksins í þessum málaflokki að umrædd stefna hefur verið undirbúin í mörg ár og að sjálfseignarfyrirkomulagið væri niðurstaðan. Hér kom hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fram og sagði að það væri ekkert vegna þess að þingmaðurinn hefði neitt á móti hlutafélagaforminu, enda getur hún tæplega haldið því fram eftir að hafa unnið þau verk sem hún hefur unnið, en hún sagði að stemmningin væri þannig í Sjálfstæðisflokknum að það væri tortryggni í kringum þetta vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn gæti hugsanlega einhvern tíma selt það og þar af leiðandi ætti að vera sjálfseignarfyrirkomulag. (Forseti hringir.)

Í fullri alvöru, eru þetta rökin?