132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Matvælarannsóknir hf.

387. mál
[13:58]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi ríkisstjórnarinnar til laga um stofnun Matvælarannsókna hf. Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að stofnað verði hlutafélagið Matvælarannsóknir hf. sem geti leyst af hendi verkefni sem núna eru hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Rannsóknastofu Umhverfisstofnunar og matvælarannsóknum Keldnaholti. Hlutverk þessa félags verði að stunda rannsóknir og þróunarstarf sem miðar að því að auka samkeppnishæfni íslensks matvælaiðnaðar, stuðla að nýsköpun í íslenskum matvælaiðnaði, bæta þekkingu og fagmennsku og stuðla að auknum gæðum, öryggi, heilnæmi og hollustu matvæla. Þetta gerist með rannsóknum, þróunarvinnu, prófunum, miðlun þekkingar og ráðgjöf í samvinnu við fyrirtæki og háskóla hér á landi og jafnframt háskóla erlendis. Félaginu er þannig ætlað að vera þekkingarbrú á milli atvinnulífs og háskóla.

Í stefnu Vísinda- og tækniráðs frá árinu 2003 er m.a. lögð áhersla á að endurgreina skipulag og starfshætti opinberra rannsóknastofnana. Efling matvælarannsókna með samþættingu verkefna á þessu sviði á vegum hins opinbera hefur þó verið til umræðu í mun lengri tíma. Nokkur þróun til sameiningar hefur átt sér stað en full ástæða er til að taka nú stærri skref.

Í júní árið 2005 fól ég starfshópi embættismanna undir forustu forsætisráðuneytisins að undirbúa frumvarp til laga um sameiningu matvælarannsókna í eina stofnun. Hópurinn skilaði mér í síðari hluta nóvember 2005 drögum að lagafrumvarpi um stofnun Matvælarannsókna hf. ásamt greinargerð sem er samhljóða því frumvarpi og greinargerð sem hér er lagt fram.

Eins og hv. alþingismenn vita eru Íslendingar afar háðir matvælaframleiðslu, bæði til eigin neyslu og til útflutnings. Beint eða óbeint er matvælaframleiðsla langumsvifamesta svið íslensks atvinnulífs og vinnumarkaðar. Það er því afar mikilvægt að hafa yfir að ráða sem fullkomnustu þekkingu á því sviði. Það á við um frumframleiðslu, úrvinnslu, framleiðslu tækjabúnaðar og alþjóðleg viðskipti með matvæli, þar með talið gæslu öryggis og gæða í öllu framleiðslu- og viðskiptaferlinu frá uppruna hráefnis til afhendingar hjá neytendum vörunnar.

Áreiðanleiki og skjótvirkur rekjanleiki vöru og haldgóðar upplýsingar um efnainnihald getur ráðið úrslitum fyrir samkeppnisstöðu íslenskrar matvælaframleiðslu. Gildir þar einu hvort um er að ræða fiskmeti, landbúnaðarafurðir eða aðrar unnar matvælaafurðir.

Með sameiningu á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, rannsóknastofu Umhverfisstofnunar og Matvælarannsóknum Keldnaholti verður til sterk eining, bæði fjárhagslega og faglega, sem getur þjónað háskólum og atvinnulífi betur en núverandi stofnanir gera.

Í fyrsta lagi stuðlar samnýting starfsmanna og búnaðar að hagkvæmni og bættri aðstöðu til rannsókna. Verk- og fagþekking starfsmanna þessara eininga er náskyld og tækjabúnaður er að töluverðu leyti sambærilegur.

Í annan stað samnýtist uppbygging sérfræðiþekkingar á einum stað fyrirtækjum í mismunandi atvinnugreinum. Rannsóknaraðferðir eru tiltölulega óháðar því hvert hráefnið er. Það er ekki grundvallarmunur á því að rannsaka innihald og geymsluþol eða gæði fisks, kjúklinga, kjöts, mjólkurafurða eða gosdrykkja svo að nokkur dæmi séu nefnd.

Í þriðja lagi eykst bolmagn til að takast á við stærri og fjölbreyttari verkefni með þátttöku innlendra og erlendra aðila. Stór rannsóknastofa sem býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu getur veitt atvinnulífi og neytendum betri þjónustu en litlar rannsóknastofur.

Í fjórða lagi eykur breiðari sérfræðiþekking möguleika til þátttöku í sérfræðinefndum á vegum Evrópusambandsins eða annarra alþjóðlegra samtaka og hafa þannig áhrif á verkefnaval í þágu íslenskra hagsmuna.

Loks má nefna að rannsóknastofa með yfirgripsmeiri þekkingu getur veitt háskólum um allt land aukna þjónustu, t.d. með því að taka þátt í að þróa rannsóknatengt framhaldsnám með háskólunum.

Rannsóknastofnanir ríkisins og reyndar fleiri ríkisstofnanir hafa um langt skeið óskað eftir því að fá meira svigrúm til athafna en reglur um ríkisrekstur gera ráð fyrir. Með því að reka Matvælarannsóknir í formi hlutafélags eykst þetta svigrúm og sjálfstæði stjórnenda frá því sem nú er. Stjórnendur hjá A-hluta ríkisaðila eru háðir meiri takmörkunum í rekstri en stjórnendur fyrirtækja með annað rekstrarform. Innra stjórnkerfi flestra eða allra ríkisstofnana er bundið í lögum, reglugerðum eða háð samþykki ráðherra, og skipting ábyrgðar milli forstöðumanna stofnana og stjórna ríkisstofnana á rekstri er að mörgu leyti óskýr.

Helstu kostir þess að reka hlutafélag um matvælarannsóknir í stað ríkisstofnunar eru eftirfarandi:

Hlutafélagsformið er þrautreynt og fastmótað. Eigendur bera meiri ábyrgð á stjórnun og eignarhaldi. Stjórn félagsins ber skýrari ábyrgð. Sveigjanleiki hlutafélags til að nýta tækifæri sem gefast og aðlagast breytingum í umhverfinu er meiri en hjá ríkisfyrirtækjum. Möguleiki er á auknum tengslum bæði við háskóla, atvinnulíf og fleiri.

Ákvæði laga um hlutafélög gilda um félagið ef ekki er kveðið á um annað í lögum þessum. Mikilvægt er að búa þannig um hnútana að félagið geti boðið fjölbreytta þjónustu og að ekki verði efast um að hún starfi á almennum markaði á sömu forsendum og önnur fyrirtæki sem stunda matvælarannsóknir. Heilbrigð samkeppni mun efla matvælarannsóknir á Íslandi og stuðla að skilvirkari starfsemi. Sjávarútvegsráðherra sem gert er ráð fyrir að fari með eignarhlut ríkisins í félaginu mun á stofnfundi þess skipa félaginu stjórn sem starfar fram að fyrsta aðalfundi. Gert er ráð fyrir að stjórnin verði skipuð sjö mönnum þannig að tveir stjórnarmenn verði skipaðir af sjávarútvegsráðherra án tilnefningar, einn tilnefndur af landbúnaðarráðherra, einn af umhverfisráðherra, einn af iðnaðarráðherra, einn af Samtökum atvinnulífsins og einn tilnefndur sameiginlega af Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Háskólanum í Reykjavík og Landbúnaðarháskóla Íslands. Gert er ráð fyrir að stjórnin ráði hið fyrsta forstjóra sem í samráði við hana undirbúi starfsemi félagsins, gangi frá ráðningarmálum starfsmanna og hugi að framtíðaruppbyggingu félagsins. Það verða m.a. verkefni nýrrar stjórnar og stjórnenda Matvælarannsókna hf. að skilgreina betur framtíðarsýn félagsins, ákvarða innra skipulag starfseminnar, skilgreina þau verkefni á sviði matvælarannsókna sem brýnt er að félagið sinni, útfæra og efla samstarf við aðra rannsóknaraðila, háskólastofnanir og atvinnulíf, huga að framtíðaruppbyggingu starfseminnar og húsnæðismálum og tryggja fjárhagslegan grundvöll starfseminnar til framtíðar.

Lögð er áhersla á að fyrirtækið verði stofnað í rekstrarhæfu formi, þ.e. nægjanlega stöndugt til að geta gert ráðstafanir til að sameina starfsemina undir einu þaki og staðið undir eðlilegri endurnýjun á tækjabúnaði. Lagt er til að stofnhlutafé fyrirtækisins taki mið af þessu. Miðað við áætlaða húsrýmisþörf, eðlilega lausafjárstöðu og 45–50% eiginfjárhlutfall má lauslega áætlað að stofnhlutafé ríkisins þurfi að vera 350–400 millj. kr.

Með stofnun Matvælarannsókna hf. hættir ríkið að reka matvælarannsóknir innan A-hluta ríkisins. Það þarf þá að kaupa slíka þjónustu á viðskiptalegum forsendum eða veita styrki til starfsemi og verkefna sem nauðsynleg þykja. Um slík viðskipti gilda m.a. lög um opinber innkaup og ákvæði fjárreiðulaga um samninga til langs tíma en styrkveitingar þurfa að vera í samræmi við reglur um ríkisstyrki á Evrópska efnahagssvæðinu. Það þarf því að styrkja hlutverk ráðuneyta og stjórnsýslustofnana sem kaupenda að þjónustunni. Ríkið þarf sem kaupandi þjónustu á sviði matvælarannsókna að skilgreina þau verkefni og þjónustu sem það vill að unnin séu á kostnað skattgreiðenda. Í mörgum tilvikum er um að ræða verkefni og þjónustu sem æskilegt er að raska sem minnst eða þarf að vinna við í nokkur ár og þess vegna sé best að gera um þetta samninga til nokkurra ára í senn.

Stór hluti af rannsóknaverkefnum er fjármagnaður með styrkjum úr innlendum og erlendum samkeppnissjóðum. Margir þessara sjóða fjármagna einungis viðbótarkostnað við verkefni en ekki allan kostnaðinn við þau. Umsækjendur um styrki þurfa í slíkum tilvikum að leggja fram mótframlag sem getur numið um helmingi af áætluðum heildarkostnaði verkefnisins. Ríkið leggur þetta grunnframlag til háskóla og rannsóknastofnana sem það rekur. Með breyttu rekstrarformi Matvælarannsókna þarf því að gera sérstakar ráðstafanir til að tryggja að kerfisbreytingin sem slík komi ekki í veg fyrir að hægt verði að uppfylla kröfu um mótframlag. Þess vegna er nauðsynlegt að setja t.d. grunnframlög í sérstaka sjóði sem veiti mótframlög vegna rannsóknarverkefna á sviði matvæla sem hljóta styrki úr samkeppnissjóðum enda fái umsækjandi ekki grunnframlag með öðrum hætti frá ríkinu.

Samkvæmt 7. gr. frumvarpsins er Matvælarannsóknum hf. skylt að halda uppi tilskilinni öryggisþjónustu á sviði matvælarannsókna í þágu landsmanna sem nánar verður skilgreind í samningi við félagið. Umhverfisstofnun sem fer með yfirumsjón með matvælaeftirliti mun ekki lengur reka slíka þjónustu á eigin vegum og er því háð rannsóknastofnunum annarra. Íslenska ríkinu ber lögum samkvæmt að tryggja svo sem kostur er gæði, öryggi og hollustu matvæla, og að merkingar og aðrar upplýsingar um þau séu réttar og fullnægjandi. Þessar kröfur þarf að uppfylla til að tryggja útflutningstekjur íslenskra matvæla til framtíðar.

Til þess að hið opinbera geti sinnt hlutverki sínu á þessu sviði þarf þjónusta á sviði matvælarannsókna að vera þannig að heilbrigðiseftirlitið og heilbrigðisþjónustan geti gengið að því vísu að njóta ávallt forgangs þegar nauðsyn krefur. Vegna aðgengis að gögnum, gagnaskilaskyldu og öryggisþjónustu er lagt til að umhverfisráðherra leggi fram frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 93/1995, um matvæli, til þess að tryggja að Umhverfisstofnun hafi ávallt undir höndum tiltækar upplýsingar um niðurstöður úr sýnatökum heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna. Helgast það af því að rannsóknastofa Umhverfisstofnunar verður hér eftir hluti af Matvælarannsóknum hf. en ekki hluti af starfsemi Umhverfisstofnunar.

Samstarf rannsóknastofnana og háskóla hefur verið vaxandi. Það er mikilvægt að Matvælarannsóknir hf. og háskólarnir efli samstarf sitt og auki með því ávinning beggja, t.d. með sameiginlegum starfsmönnum þar sem starfsmaður stundar rannsóknir hjá félaginu samhliða kennslu í háskóla. Einnig er mikilvægt að gefa nemendum í rannsóknatengdu framhaldsnámi tækifæri til að stunda rannsóknir innan félagsins og læra þannig af reynslu og þekkingu starfsmanna en jafnframt koma inn með ferskar hugmyndir. Þannig fá skólar og nemendur aðgang að þekkingu og tækjum en félagið aðgang að hugmyndaríkum nemendum sem bera gjarnan með sér nýjar og ferskar hugmyndir.

Uppbygging starfsemi Matvælarannsókna hf. þarf að taka mið af því að efla samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs með því að stunda rannsóknir og miðla þekkingu sem hefur hagnýtt gildi. Auk þess að hafa aðgang að rannsóknum og þekkingu þurfa framleiðslufyrirtæki aðgang að ýmsum gagnagrunnum, m.a. til að geta forgangsraðað aðgerðum sem auka öryggi afurða sem þeir framleiða. Flest íslensk framleiðslufyrirtæki eru það smá að þau geta ekki lagt í mikinn kostnað til að byggja upp þá þekkingu og gagnasafn sem til þarf.

Herra forseti. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Matvælarannsóknir hf. bjóði öllum starfsmönnum Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Matvælarannsóknum Keldnaholti og rannsóknastofu Umhverfisstofnunar störf. Ástæðan er að sjálfsögðu sú að starfsemin byggist fyrst og fremst á þekkingu og færni þessara starfsmanna.

Um biðlaunarétt sem kann að hafa fylgt störfum í framangreindum ríkisstofnunum gilda ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þó er lagt til að komið verði í veg fyrir að starfsmenn fyrrgreindra stofnana sem eiga aðild að B-deild LSR og nýta rétt sinn til að þiggja starf hjá Matvælarannsóknum hf. geti nýtt sér rétt til að hefja töku lífeyris meðan þeir eru fastráðnir hjá félaginu. Ef ekki er sett sérstakt lagaákvæði geta starfsmenn sem þetta á við hafið töku lífeyris samhliða starfi sínu hjá félaginu. Slíkt er í ósamræmi við það sem almennt gildir um sjóðfélaga í B-deild er starfa hjá ríkinu.

Með lögum um stofnun Matvælarannsókna hf. falla úr gildi ákvæði laga nr. 64/1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, sem varða starfsemi Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Viðhalda þarf stofnuninni áfram sem lögaðila án starfsemi til að efna samninga stofnunarinnar sem gerðir hafa verið eða gerðir verða fram til 1. ágúst 2006.

Herra forseti. Að lokinni þessari 1. umr. legg ég til að frumvarpinu verði vísað til allsherjarnefndar.