132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Matvælarannsóknir hf.

387. mál
[14:30]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vona að orð hæstv. forsætisráðherra gangi eftir og þetta verði til þess að efla starfsemi úti um landið en ekki draga úr henni. Hins vegar hræða auðvitað sporin í fortíðinni um það að menn fari þá leið að til að tryggja hagnað og afkomu í rekstri þessa fyrirtækis, sem er beinlínis ætlast til miðað við greinargerð frumvarpsins, verði leitast við að færa þetta til samþjöppunar á einn eða tvo staði. Það þýðir þá einfaldlega að sú litla starfsemi, en ágæta, sem víða hefur verið rekin úti um landið verði hreinlega lögð af og sameinuð í stærri einingar þar sem verið er að leita rekstrarhagkvæmninnar og að þjónusta e.t.v. úti um landsbyggðina breytist verulega, ég tala nú ekki um þau störf sem þar hafa verið í boði.