132. löggjafarþing — 50. fundur,  24. jan. 2006.

Stjórn fiskveiða.

353. mál
[17:16]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja ræðu mína á að taka undir með hv. síðasta ræðumanni, Jóni Bjarnasyni, þetta frumvarp er alls ekki einfalt. Frumvarpið er mjög flókið. Meiri háttar flókið. Maður þarf að þrællesa sig í gegnum frumvarpið og fá aðstoð hjá þaulvönum mönnum til að fá botn í hvað verið er að fara með því. Í stuttu máli snýst þetta um það að verið er að breyta einhverjum bótum í gatónýtu kerfi úr því að vera ákveðin þyngd og í það að verða einhver prósenta af heildaraflanum. Snýst þetta um fiskverð? Ég veit ekki til að svo sé. En þetta ágæta kerfi, ónýta kerfi, sem er að leggja byggðir landsins í rúst átti upphaflega að snúast um fiskverð. Þetta er peningabruðl. Þetta snýst um að úthluta verðmætum til einhverra sem höfðu einhvern tímann fengið úthlutað bótum eftir einhverri viðmiðun einhvern tímann langt aftur í tímann. Þetta er algjörlega óskiljanlegt frumvarp.

Ég hefði talið, frú forseti, að þetta ætti ekki að vera verkefni hæstv. sjávarútvegsráðherra. Ég hefði talið að okkar ágæti hæstv. sjávarútvegsráðherra ætti að vera í öðrum verkum. Hann ætti að vera að leysa raunverulegan vanda byggðanna sem er að blæða út vegna kerfisins. Þessi ágæti maður hefur lofað fyrir hverjar einustu kosningar einhverjum bótum fyrir byggðirnar. Lofað var að standa vörð um þorskaflahámarkið.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill minna hv. þingmann á að ávarpa hæstv. ráðherra réttilega.)

Frú forseti. Ég biðst afsökunar á því ef ég hef ekki ávarpað hæstv. ráðherra með viðurkvæmilegum hætti. En það var alls ekki ætlunin. En ég ætlaði að koma því að, frú forseti, að þessi ágæti hæstv. ráðherra hefur ekki staðið við kosningaloforð í gegnum árin. Hann hefur alltaf sagst ætla að laga umrætt kerfi sem hefur verið að þrengja að byggðunum, m.a. á Vestfjörðum þaðan sem hann kemur. Síðan þegar hann er kosinn á þing hefur hann ekki staðið við það. Hann hefur sagst ætla að standa vörð um þorskaflahámarkið, hann gerði það ekki. Hann hefur gefið það sterklega í skyn, m.a. á heimasíðu sinni, að hann hafi ætlað að standa vörð um sóknardagakerfið, en það var lagt niður. Síðan kemur hann með frumvarp, sem ætti alls ekki að vera verkefni dagsins, um að breyta þyngd í prósentur. Það snýst um það. Verkefni dagsins ætti að vera að hlúa að byggðunum sem hafa farið illa út úr verkum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Við höfum verið að ræða um nýliðun í útgerð. Ég tók saman, frú forseti, að sá sem kaupir aflaheimildir, 100 tonn, sem er þó lítil útgerð, þarf að greiða fyrir það um 150 millj. kr., 140–150 milljónir með veiðarfærum og bát, litlum bát. Tekjur af slíkri útgerð eru um 13 millj. kr. Vaxtakostnaður og annað sem þessar 150 milljónir kosta að taka að láni veldur því að tapið á þessari útgerð eru heilar 8 milljónir árlega. Síðan þarf náttúrlega að greiða niður aflaheimildirnar. Ég hef lagt þetta fyrir nemendur í Viðskiptaháskólanum á Bifröst, hvernig eigi að komast inn í útgerð og hvernig slík útgerð eigi að reka sig. Það fær enginn botn í það. Það sem verra er, er að við sjáum að það er svo mikill áróður með þessu kerfi frá stjórnvöldum sem ættu að vera hlutlaus og gæta að hagsmunum almennings. Því miður er því ekki að heilsa að maður fái í rauninni hlutlægar upplýsingar og að staðið sé vörð um hagsmuni almennings. Nei, það er sko aldeilis ekki. Því er haldið að fólki að hér sé um einhverja hagræðingu að ræða. En hvar er hagræðingin? Er hún í launaumslagi sjómanna? Nei, hún er það ekki. Tekjur sjómanna hafa lækkað og auðvitað lækka tekjurnar þegar verið er að skuldsetja útgerðina gríðarlega. Menn tala alltaf um öflugar útgerðir, menn hafa fengið stærri útgerðir og skuldsettari. Á móti hafa laun sjómanna lækkað. Þetta er afraksturinn af stefnu stjórnvalda á síðustu árum.

Ég er á því að þeir fjármunir sem renna út úr útgerðinni, það sé áhyggjuefni. Vegna þess að þetta kemur niður á útveginum. Við sjáum það ef við förum um hafnir landsins, ég var staddur í höfn norður í landi, á Siglufirði, að þar er ekkert af nýjum bátum. Ef þessi hagræðing væri raunveruleg væri einhver uppgangur á þessum stöðum í sjávarplássunum. Það er því miður alls ekki.

Ég verð að segja, frú forseti, að mér finnst frumvarp sem þetta vera virkilega aum frammistaða hjá hæstv. ráðherra, ráðherra sem ætti að skilja vandann og skilja að þetta kerfi brennur virkilega á byggðum landsins.