132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Styrkir til erlendra doktorsnema.

186. mál
[12:12]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Bara örstutt. Ég kem upp til að leiða athyglina að því að í gegnum árin hafa margir Íslendingar stundað doktorsnám við erlendar háskólastofnanir og stundað nám við erlendar háskólastofnanir. Við höfum gert þetta í gegnum árin, held ég, að mjög miklu leyti okkur að kostnaðarlausu. Það má kannski með vissum hætti segja að þarna hafi farið fram leynd þróunaraðstoð til Íslendinga og að þetta hafi hjálpað okkur sem þjóð mjög fram á veginn. Ég er sjálfur einn af þeim sem var svo heppinn að fá að njóta háskólanáms erlendis í mörg ár og hygg að ég muni búa að því í dag þó það sé kannski umdeilt. En hvað um það.

Ég vil bara minna á þetta. Ég held að það sé varasöm þróun fyrir okkur Íslendinga að leggja ofuráherslu á að fólk sé í doktorsnámi bara á Íslandi. Við verðum líka að halda því opnu að fólk leiti utan til náms. Við verðum líka að opna fyrir það að útlendingar geti komið hingað til Íslands og stundað hér háskólanám. Þetta eykur víðsýni meðal þjóðarinnar og er öllum (Forseti hringir.) til hagsbóta.