132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Brú yfir Jökulsá á Fjöllum.

335. mál
[13:03]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal) (S):

Frú forseti. Eins og hv. þingmönnum er kunnugt og ekki hefur farið fram hjá neinum er brúin yfir Jökulsá á Fjöllum veikasti hlekkurinn á hringveginum. Hún hefur ekki fullan burð og langt er að fara frá Akureyri til Egilsstaða ef aka þarf allan hringinn. Af þeim sökum höfum við fulltrúar Austurlands og Norðurlands áhuga á því að tengja betur saman þessi svæði, sem ég veit að hæstv. ráðherra skilur. Hann skilur vel að það skiptir máli að tengja saman Vesturland, Vestfirði og Norðvesturland og skilur um leið hversu nauðsynlegt er að tengja saman Norðausturland og Austurland. Af þeim sökum spurði ég hæstv. ráðherra 16. nóvember sl. þessarar sömu spurningar.

Ég ítreka það við hæstv. ráðherra að ég vil gjarnan fá um það yfirlýsingu að það verði unnið svo hratt að undirbúningi nýrrar brúar yfir Jökulsá á Fjöllum að af tæknilegum ástæðum verði hægt að bjóða hana út haustið 2006 og í síðasta lagi vorið 2007. Þessu svaraði hæstv. ráðherra með þessum ummælum, með leyfi hæstv. forseta:

„Virðulegur forseti. Það er frá því að segja um brúna á Jökulsá á Fjöllum að hún hefur verið í svipuðu ástandi í marga áratugi þannig að þar er ekkert nýtt á ferðinni. Jafnframt er rétt að ítreka það og undirstrika að hér verða engar yfirlýsingar gefnar af hálfu samgönguráðherra um það hvenær verk sem ekki eru á samgönguáætlun, sem Alþingi hefur ekki afgreitt, verða boðin út. Þó að samgönguráðherrar séu áhrifamiklir þá gengur það ekki þannig fyrir sig að hægt sé að gefa yfirlýsingar um hvaða verk verða boðin út sem ekki hafa þegar fengið eðlilega meðferð við undirbúning samgönguáætlunar.“

Svo mörg voru þau orð, hæstv. forseti, og ég tek alveg undir með hæstv. ráðherra, hann hefur ekki síðasta orðið um það hvernig gengið verður frá samgönguáætlun hér á Alþingi heldur er það þingið og þingmenn sem ákveða það. Þess vegna var ég ekki að spyrja hann um það hvenær verkið yrði sett á samgönguáætlun heldur laut spurning mín að því að tæknilegur undirbúningur, hönnun og annað því um líkt, yrði því ekki til fyrirstöðu að hægt yrði að að ráðast í verkið. Af þeim sökum ítreka ég spurningu mína sem ég lagði fyrir hæstv. ráðherra 16. nóvember sl.:

Hvenær má búast við að undirbúningi og hönnun nýrrar brúar yfir Jökulsá á Fjöllum ljúki?