132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Akstur undir áhrifum fíkniefna.

292. mál
[13:22]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að bera upp þessar spurningar. Ég tel að umræða í þinginu um umferðaröryggismál, um mikilvægustu þætti umferðaröryggismála, sé geysilega mikilvæg. Ég fagna því að fá tækifæri til að svara spurningum hv. þingmanns.

Í fyrsta lagi er spurt: „Telur ráðherra þörf á að endurskoða lög og reglur um akstur undir áhrifum fíkniefna og að tekin verði upp svokölluð núllmörk eins og tíðkast sums staðar á Norðurlöndum?“

Svar mitt er svohljóðandi: Ég tel fulla ástæðu til að endurskoða lög og reglur um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem og annarra efna sem geta haft sljóvgandi áhrif á ökumenn við stjórn ökutækja. Þar eru einnig lyf sem merkt eru með sérstökum viðvörunarþríhyrningi á söluumbúðum ökumönnum til varnaðar vegna sljóvgandi áhrifa. Af þessu tilefni er rétt að upplýsa að í ráðuneytinu hefur farið fram ítarleg endurskoðun á ákvæðum umferðarlaga sem að þessum þáttum snúa með tilliti til þess hvort hægt sé að setja skýrari reglur hvað varðar viðmið en ekki síður varðandi viðurlagaákvæði laganna. Frumvarpið hefur þegar verið lagt fyrir þingið og verður vonandi tekið til umræðu innan tíðar.

Við þessa vinnu hafa ýmis vandkvæði komið í ljós, sérstaklega varðandi viðmiðin. Ákveðið var að leggja til að skýr lína yrði dregin varðandi ólögleg efni. Greinist slík efni í blóði teljist ökumaður óhæfur til að stjórna ökutæki og geti átt yfir höfði sér alvarleg viðurlög. Varðandi ólögleg efni er viðmið því sett við núll, þannig að það sé undirstrikað. Málið er hins vegar ekki eins einfalt þegar kemur að löglegum efnum, svo sem sljóvgandi lyfjum. Áhrif þeirra á einstaklinga geta verið mjög persónubundin. Í slíkum tilvikum er því flóknara að skilgreina mörkin. Í frumvarpinu er lagt til að í slíkum tilvikum verði lækni falið mat á hæfni ökumanns til að stjórna ökutæki í hverju tilviki. Tillögur þessar taka m.a. mið af gildandi löggjöf Svía í umferðarmálum sem hafa verið mjög framsæknir að þessu leyti.

Í annan stað spyr hv. þingmaður: „Telur ráðherra gildandi lagaákvæði og reglur um brotamörk hvað varðar akstur undir áhrifum fíkniefna vera flókin og kostnaðarsöm í framkvæmd?“

Svar mitt er svohljóðandi: Vandinn við gildandi ákvæði umferðarlaga að því er varðar akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna er sá að þau eru ekki nógu skýr. Þau hafa því valdið vandkvæðum í framkvæmd.

Varðandi kostnaðarþáttinn er rétt að upplýsa að þróuð hefur verið ný greiningaraðferð við mælingar á því hvort viðkomandi sé undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Þetta er m.a. gert með svokölluðum munnvatnsmæli. Gert er ráð fyrir því að með tilkomu þessarar nýju tækni komi kostnaður við rannsóknir þessara mála til með að minnka verulega frá því sem nú er. Með tilkomu mælisins verður með markvissari hætti hægt að ákvarða með meiri nákvæmni en áður hefur verið gerlegt hverjir þurfi í frekari rannsókn, svo sem blóðrannsókn, en slíkar rannsóknir eru enn sem fyrr talsvert kostnaðarsamar. Þessi nýi búnaður á því bæði eftir að auka öryggi, einfalda framkvæmdina og draga úr kostnaði við eftirlitið.