132. löggjafarþing — 51. fundur,  25. jan. 2006.

Eignarskattur og eldri borgarar.

453. mál
[14:36]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það er gott að ræða um skatta og gott að ræða um skattalækkanir þegar um raunverulegar skattalækkanir á ákveðna hópa er að ræða. Það hefði kannski verið rétt að spyrja: Hversu háar fjárhæðir hefur ríkisstjórnin haft af þessum aldurshópi með því að láta skattleysismörkin ekki fylgja verðlagi? Nokkuð viss er ég um að upphæðirnar væru talsvert hærri en hér um ræðir og fjöldinn kannski meiri en hér er.

Það er í raun ótrúlegt að horfa á skattbreytingar ríkisstjórnarinnar. Það eru stóreignamenn og hátekjumenn sem njóta lækkunar skatta en þeir sem eru með lægri tekjur og meðaltekjur borga meira í skatt en þeir áður gerðu. Af hverju ríkisstjórnin ákveður að gera þetta svona veit ég ekki, en það hefur komið fram að það er meðvituð ákvörðun að gera þetta svona. Það var haft eftir hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að svo væri. Því veltir maður fyrir sér: Hvað er ríkisstjórnin að gera með því að láta persónuafsláttinn og skattleysismörkin ekki fylgja verðlagi og þyngja skattbyrðina verulega á bæði eldra fólki með lágar tekjur og öðru fólki með lágar tekjur?