132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Fangaflug Bandaríkjastjórnar.

[10:43]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er ósköp eðlilegt að þetta mál sé tekið upp hérna núna því að Evrópuráðið er akkúrat að funda þegar við stöndum hér á þessum stað, ég skil þess vegna að hv. þm. Össur Skarphéðinsson vilji ræða þetta hér.

Á Evrópuráðsþinginu hefur komið fram skýrsla en ferlið er bara hálfnað, þessi skýrsla er því ekki endanleg en þegar lokið verður við hana þá verður tekin ákvörðun um hvort málið verður tekið upp í ráðherraráðinu. Við Íslendingar eigum t.d. eftir að svara ýmsum spurningum til Evrópuráðsins og höfum frest til þess til 21. febrúar.

Ég vil draga það sérstaklega fram hér eins og hefur margoft komið fram í umræðunni að íslenskum stjórnvöldum er ekki kunnugt um neitt ólöglegt fangaflug hér yfir og það vita hv. þingmenn, það hefur komið hérna fram ítrekað. Ég tók þetta mál upp að eigin frumkvæði í utanríkismálanefnd, bað um fund þar til að ræða sérstaklega þessa fangaflutninga og það var gert 30. nóvember. Í kjölfarið hefur komið fram að Íslendingar hafa ekki gert minna en aðrir, meira ef eitthvað er. Búið er að taka málið upp ítrekað á vettvangi stjórnvalda á milli Íslands og Bandaríkjanna þannig að við höfum aldeilis verið að gera okkar í þessu. Þau svör sem við fengum á fyrri stigum þóttu ekki fullnægjandi en síðan hafa komið yfirlýsingar sem hafa verið ákveðnar frá hendi Bandaríkjanna en það eru sem sagt engar sannanir sem við höfum í höndunum.

Ég furða mig á því að hér skuli fulltrúi Vinstri grænna halda því fram að við séum með eitthvert þegjandi samkomulag um að þetta sé í lagi, þetta hugsanlega fangaflug. (Gripið fram í.) Það er algerlega fráleitt og ég sem hluti af stjórnarmeirihlutanum vísa þessu á bug. Íslendingar hafa staðið sig í stykkinu í málinu. Okkur er ekki sama um hugsanlegt fangaflug og við höfum komið þeim skilaboðum á framfæri til bandarískra stjórnvalda. Og meðan engar sannanir liggja fyrir þá er ósköp lítið hægt að gera. En að sjálfsögðu munum við fylgjast áfram með málinu. (Gripið fram í.)