132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:40]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur gert grein fyrir því sjónarmiði sínu að innleiða beri bráðabirgðaástand sem hann virðist greinilega afar ósáttur við. Engu að síður vill hann að það verði innleitt. Hann bindur vonir við að stjórnarskránni verði breytt innan skamms, sem gæti orðið til að bráðabirgðaástandinu yrði aflétt.

Hv. þingmaður sagði, frú forseti, að málið væri alls ekki unnið eins og þarf. Ég vek athygli á því og undirstrika að hv. þingmenn Samfylkingarinnar taka undir með Vinstri grænum hvað það varðar að vinnubrögðin séu ámælisverð, þótt þeir hafi ákveðið að skipta um kúrs og ganga til liðs við stjórnarliða, sem ég harma. Ég hefði auðvitað viljað sjá hv. þingmenn Samfylkingarinnar fylgja áfram félögum sínum í stjórnarandstöðunni og standa gegn því að málið færi í gegn. Við hefðum þá getað teygt tímann þar til endanleg niðurstaða fengist í þessi mál.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að samkvæmt gildandi lögum hafi sá sem stundar rannsóknir á vatnsafli ekki haft forgang til nýtingar og að samkvæmt upplýsingum frá iðnaðarráðuneyti hafi komið í ljós að vegna þessa séu orkufyrirtækin tregari til að stunda rannsóknir á vatnsafli en heppilegt getur talist. Nú spyr ég hv. þingmann: Er það þar með skoðun Samfylkingarinnar að greiða þurfi fyrir því að orkufyrirtæki geti hafið rannsóknir og aukið möguleika sína á að reisa virkjanir til að knýja þá stóriðju sem í farvatninu er og ríkisstjórnin hefur boðað?