132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[19:50]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki viss um að fyrirtækið IMG Gallup, sem gerði þessa könnun, hefði verið dús við þessa útleggingu hæstv. ráðherra, túlkun hennar á könnuninni. Hún leggur alltaf saman þá sem eru hlynntir og frekar hlynntir, jákvæðir og frekar jákvæðir en undirstrikar síðan hversu margir hafi verið mjög neikvæðir. Af hverju leggur hún ekki saman þá sem voru neikvæðir, frekar neikvæðir og mjög neikvæðir? Er verið að gefa hér einhverjar misvísandi upplýsingar? Já, auðvitað, af því það hentar ekki hæstv. ráðherra að taka undir þær upplýsingar sem ég var með hér. Ég er að leggja saman þá sem eru neikvæðir og frekar neikvæðir en hún tekur bara þá sem eru mjög neikvæðir.

En kannski er þetta deila um keisarans skegg. Það sem ég var að reyna að segja með mínum málflutningi áðan var að hæstv. ráðherra verður að átta sig á því að 37% þjóðarinnar eru andvíg, frekar andvíg og mjög andvíg frekari uppbyggingu áliðnaðar á Íslandi. Það er mjög stórt hlutfall þjóðarinnar. Og hæstv. ráðherra á ekki að tala eins og hún sé hér að tala fyrir hönd meiri hluta þjóðarinnar og allir hinir séu bara nokkuð sáttir, eða frekar óákveðnir. En það má skilja af máli hæstv. ráðherra eins og hún formúlerar sig.

Hvað það varðar hvort landsmenn eru jákvæðir eða neikvæðir í garð þess áliðnaðar sem er í landinu vil ég segja: Auðvitað er fólk jákvætt í garð þeirra atvinnufyrirtækja sem eru og starfa í landinu. (Iðnrh.: Nú, er það?) Annað væri óeðlilegt. Fólk vill auðvitað líka ná sáttum. Fólk vill ná sáttum um hluti en það þýðir þá líka að menn verða að fara í málamiðlanir. Það þýðir þá líka að stundum verður meiri hlutinn að brjóta odd af oflæti sínu, hlusta á það sem minni hlutinn hefur fram að færa og sjá til að sveigja (Forseti hringir.) að einhverju leyti af braut.