132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[13:33]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég heyri að það er eðlilega nokkur spenningur í þingsal því að frumvarpið sem við ræðum nú snertir ekki hvað síst tilfinningar fólks, bæði gagnvart nútíðinni og gagnvart framtíðinni. Frumvarp það sem hér er til 3. umr. hefur yfirskriftina frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þessi frumvarpsbútur, kálfur eða kvíga sem hefur verið nefnt svo hér á Alþingi, er bútur úr stærra frumvarpi sem flutt var fyrir góðu ári síðan um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Tekinn var út úr því kafli og fluttur sérstaklega, kafli eða lagaheimildir sem lúta að því að rýmka heimildir iðnaðarráðherra til að veita rannsóknarleyfi til að undirbúa og undirbyggja orkuöflun fyrir frekari stóriðju hér á landi. Þetta frumvarp lýtur að því.

Málið hefur farið í gegnum 1. umr. Þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir þessu frumvarpi talaði ráðherra tæpitungulaust og sagði að markmiðið með því væri að sá sem fengi rannsóknarleyfi fengi líka vilyrði fyrir nýtingarleyfi eða virkjunarleyfi. (Iðnrh.: Það er rangt.) Þannig mælti ráðherra fyrir frumvarpinu og ef hæstv. ráðherra vill þá er meira að segja hægt að lesa ræðu hennar. Síðan þegar ráðherra sá að málið kæmist ekki fram með þeim hætti sem hún hafði kynnt það fór hún fyrst í fjölmiðla og gaf yfirlýsingu um að sá skilningur sem lagður hefði verið í frumvarpið af hennar hálfu og fleiri hvað þetta varðaði hefði verið misskilningur. Þannig kepptist hver aðilinn á fætur öðrum við að reyna að skilja eða lýsa misskilningi ráðherrans í málinu. Þegar málið kom til 2. umr. byrjaði hæstv. ráðherra enn á að lýsa því yfir að málið hefði verið flutt á grunni misskilnings þannig að hún hefur afvegaleitt þingið í störfum þess. Þannig hefur þessi málatilbúnaður verið hér.

Það er sama hvernig reynt er að teygja frumvarpið og toga, til hliðar eða á aðra kanta, meining þess er klár. Meiningin í þessu frumvarpi lýtur að því að rýmka heimildir ráðherra til að veita rannsóknarleyfi, sérstaklega til vatnsaflsvirkjana, og jafnframt að tryggja með lögum að viðkomandi sem fengið hefur rannsóknarleyfi geti í rauninni fénýtt sér það til framhalds, t.d. selt það eins og lögin um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu kveða á um en í 32. gr. þeirra laga stendur að með leyfi ráðherra sé hægt að veðsetja þau eða framselja þau. Þar með er opnað á að þessi rannsóknarleyfi sem eru aðfari nýtingarleyfa séu orðin markaðsvara.

Frú forseti. Ég er ekki einn um að telja að nú sé rétt að staldra við í stóriðjuáformunum, staldra við í áformum um byggingu frekari og fleiri álverksmiðja, staldra við í að taka fleiri stór vatnsföll í landinu til að undirbúa þau undir virkjanir.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs teljum nóg að gert í bili a.m.k. og megi nú gera hlé. Eigum við ekki að ljúka einni umdeildustu virkjunarframkvæmd sem þjóðin hefur staðið frammi fyrir, Kárahnjúkavirkjun með byggingu Reyðaráls, eigum við ekki að ljúka þeirri virkjun áður en ráðist er á næstu jökulvötn eða fallvötn? Eigum við ekki að ljúka við þá álbræðslu sem nú er í byggingu áður en við förum að undirbúa fleiri? Það er skoðun okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að það sé mál að linni. Við skulum staldra við.

Frumvarpið sem hér um ræðir snýst um að skapa nýjan og betri farveg til að taka næstu fljót til virkjunar fyrir stóriðju. Ég rakti í ræðu minni síðastliðinn fimmtudag ítarlega þau sjónarmið fólks að sumar náttúruperlur, sumar af dýrustu sívirku auðlindum landsins eins og fallvötnin eru, séu svo dýrmætar í því formi sem þær eru að ekkert geti réttlætt það að fela ráðherra ótakmarkaða heimild til að úthluta þar rannsóknarleyfum og undirbyggja virkjunarframkvæmdir. Sum fallvötn eru þannig. Er skemmst að minnast átakanna um Þjórsárver. Þar hefur verið gengið fram af slíkri grimmd og græðgi að eindæmi er. Sótt hefur verið að heimamönnum um að veita virkjunaraðilum heimildir til að ráðast inn í Þjórsárver til virkjana, en ekki síst hefur verið ráðist þar á náttúruna sjálfa sem ekki getur varið sig með orðum.

Þjórsárver eru svo dýrmæt auðlind eins og þau eru í náttúrunni sjálfri, í sívirku afli hennar sem knýr hana áfram til næstu kynslóða að við höfum ekki einu sinni rétt til að úthluta rannsóknarleyfi til virkjana á slíkum náttúruperlum. Um þetta hefur verið tekist á Alþingi. En fyrir baráttu heimafólks í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, baráttu þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, baráttu náttúruunnenda og velunnara Þjórsárvera, einstaklinga, hefur frekari innrás á Þjórsárver nú verið stöðvuð. Við vildum að það væri gert varanlega, að gefin væri yfirlýsing um að ekki yrði ráðist frekar á Þjórsárver. Sú yfirlýsing hefur ekki fengist en stjórnarformaður Landsvirkjunar viðurkenndi að þrýstingur í þjóðfélaginu væri orðinn með þeim hætti að Landsvirkjun treysti sér ekki til að halda áfram frekari innrás á Þjórsárver.

Áhyggjur hæstv. iðnaðarráðherra í því máli sneru ekki að náttúru- eða verndargildi eða líffræðilegu gildi Þjórsárvera. Nei, frú forseti, áhyggjur iðnaðarráðherra sneru að hugsanlegum skaðabótakröfum Landsvirkjunar sem hefði virkjunarleyfið á Þjórsárverasvæðinu. Skaðabótakröfur Landsvirkjunar, sem er í 100% eigu opinberra aðila, voru mestu áhyggjuefni hæstv. iðnaðarráðherra, eins og vitnað er til í grein Atla Gíslasonar fimmtudaginn 12. janúar sl. í Morgunblaðinu þar sem hann vitnar í þau orð hæstv. iðnaðarráðherra sem hún lét falla 7. janúar á ráðstefnu, með leyfi forseta:

„... en ég reikna alveg með ef að stjórnvöld tækju ákvörðun að hverfa frá þessu (Norðlingaölduveitu), að þá verði það ekki gert án skaðabóta gagnvart fyrirtækinu sem hefur leyfið í dag (Landsvirkjun).“

Þetta voru mestu áhyggjuefni iðnaðarráðherra, ekki Þjórsársverin, (Iðnrh.: Enda er ég iðnaðarráðherra.) enda er hæstv. ráðherra iðnaðarráðherra. Það er alveg hárrétt og þjóðin er búin að kynnast því. Maður veltir því að vísu fyrir sér hvar umhverfisráðherrann er í þessari umræðu allri. En Landsvirkjun heyrir undir þjóðina þó að viðskiptaráðherra fari með málið og þetta var mesta áhyggjuefni hennar, ekki staða Þjórsárvera. Við unnum þar varnarsigur og við skulum vona að það verði varanlegur sigur gagnvart Þjórsárverum þótt önnur stjórnmálaöfl, Landsvirkjun og stjórnvöld hafi verið reiðubúin að fallast á að höggvið yrði inn í Þjórsárverin.

Nú snúa átökin að næstu fallvötnum. Samkvæmt því blaði sem kynnt hefur verið og verið lögð áhersla á eru þær virkjanir sem nú er lögð áhersla á að koma inn í röðina um næstu virkjanir jökulvötnin í Skagafirði og Skjálfandafljót með Aldeyjarfossi svo nokkuð sé nefnt. Það er svo brýnt að koma frumvarpinu í gegn að það hefur notið sérstaks forgangs í öllum málum nótt og dag. Það er svo brýnt að hæstv. iðnaðarráðherra fái þessar heimildir sínar til að geta úthlutað rannsóknarleyfum sem síðan er hægt að breyta í virkjunarleyfi. Sá sem fær rannsóknarleyfi hefur slegið á vissan hátt eignarrétt sínum á þær auðlindir a.m.k. til nokkurs tíma, getur fénýtt sér það, selt og veðsett með leyfi ráðherra. Þetta er víst brýnast núna enda minnumst við orða hæstv. iðnaðarráðherra á þingi sem sagði sem rök fyrir málinu að virkjunaraðilar væru of tregir til að undirbúa næstu virkjanir í jökulvötnunum og þess vegna þyrfti að flytja þetta frumvarp til þess að lyfta undir þá og gefa þeim frekari ádrátt um að engin áhætta fylgdi því að fara út í rannsóknarleyfin.

Ég vitnaði í ræðu minni sl. fimmtudag í það sem Skagfirðingar, fólk sem hefur búið og alist upp í nágrenni þessara náttúruvætta, hafa skrifað og látið heyra í sér varðandi jökulvötnin. Í lokaorðum greinar sem Þórarinn Magnússon á Frostastöðum skrifaði í Feyki 14. september 2005 segir um það sem við tökumst á um, þ.e. hvort hæstv. iðnaðarráðherra eigi að fá frjálsar hendur um úthlutun rannsóknarleyfa sem síðan geta leitt til virkjunarleyfa í Jökulsánum í Skagafirði. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Skagfirðingar. Stöndum vörð um jökulárnar. Leyfum þeim að renna óbeisluðum frá jökulrótum til sjávar. Það er sannfæring mín að þannig verði þær Skagfirðingum sem og þjóðinni allri til mestra heilla um ókomin ár.“

Þetta er áskorun. Fleiri hafa á undanförnum vikum og missirum tjáð afdráttarlausar skoðanir sínar gegn því að leggja jökulvötnin í Skagafirði undir virkjunarrannsóknir sem frumvarpið gengur út á.

Eins er það hér og í baráttunni fyrir Þjórsárverum að í Skagafirði eru það heimamenn, bornir og barnfæddir, náttúruunnendur og vísindamenn sem berjast gegn því að verið sé að opna á möguleika til að fórna Jökulsánum í Skagafirði til stórvirkjana fyrir álbræðslur eins og áhugi iðnaðarráðherra stendur til. Við erum eina stjórnmálaaflið sem stendur með heimamönnum og leggst gegn því að Skagafjarðarvötnum sé fórnað fyrir stóriðju og stórframkvæmdir af þessu tagi. Ég vona svo sannarlega og treysti því að við munum líka hafa sigur þarna.

Það er fróðlegt að lesa allra síðustu blaðaskrif sem lúta að álæði núverandi ríkisstjórnar og hæstv. iðnaðarráðherra sem speglast einmitt í kappinu við að koma frumvarpinu áfram til að fá ótakmarkaða heimild til að úthluta rannsóknarleyfum í vatnsföllum landsins sem ekki eru þegar lögð undir. Í Fréttablaðinu í dag, 31. janúar, er grein eftir Jónatan Þórmundsson prófessor. Það kom mörgum á óvart kannski að hann mundi snúast á sveif með sjónarmiðum og baráttumálum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég vil leyfa mér að lesa þessa stuttu grein sem ber yfirskriftina: ,,Er ekki nóg komið?“, með leyfi forseta:

„Ég hef hingað til trúað því, að þjóð okkar búi yfir nægilegu frumkvæði, hugviti og sjálfstrausti til margs konar verkefna, svo hún þurfi ekki að festa sig í viðjum áliðnaðarins. Það var vissulega ónotaleg tilfinning að fylgjast með baráttu Austfirðinga fyrir Kárahnjúkavirkjun og álveri í Reyðarfirði án tillits til fyrirsjáanlegrar skaðsemi þessara framkvæmda. Þar blasa nú við stórfelldar umbreytingar á miklu landsvæði, sívaxandi sandfok yfir sveitir Austurlands og aukinn innflutningur ófaglærðra verkamanna frá útlöndum. Þar að auki er margt óljóst um endanlegan kostnað og fullkomin óvissa um efnahagslegan ávinning af framkvæmdunum fyrir Austfirði og landið allt.

En mér varð verulega hverft við nýverið, þegar ég uppgötvaði, að álmeinið er að breiða úr sér um allt land og Austfjarðaslysið því ekki einangrað fyrirbæri. Forustumenn sveitarfélaga keppast við að dásama áliðnað og karpa um hver eigi næstur að fá álver í sinn fjörð. Kappsemi forustumanna okkar í áliðnaðarmálum hryggir mig ósegjanlega. Það kann að hafa verið nauðsynlegt fyrir 30–40 árum að stofna til áliðnaðar á Íslandi, þegar ekki var kostur annarra arðbærra atvinnutækifæra. Sömu gömlu lausnirnar duga ekki lengur. Á sama tíma bíða þjóðarinnar ótal tækifæri í hátækniiðnaði, upplýsingatækni og ferðamannaþjónustu. Allt eru þetta mikilvægar atvinnugreinar til framtíðar, án verulegrar mengunarhættu og mun arðvænlegri fyrir íslenskt samfélag en duttlungafullur áliðnaður. Mun fjármögnun nýsköpunarverkefna sitja á hakanum til 2020, þegar álver verða komin í flesta firði landsins?

Ég hef hingað til trúað því, að þjóð okkar búi yfir nægilegu frumkvæði, hugviti og sjálfstrausti til margs konar verkefna, svo að hún þurfi ekki að festa sig í viðjum áliðnaðarins. Við hverja er að sakast? Enga nema okkur sjálf, þjóðina. Sofandaháttur okkar og dofin vitund í þægindakapphlaupi nútímans hafa sljóvgað stjórnmálamenn okkar. Þeir eru aðeins spegilmynd af þjóðinni. Hvenær taka þeir á sig rögg, sýna framsýni og raunverulega forustuhæfileika til að leiða þessa þjóð til annars en skammtímalausna? Meðan þjóðin hefur ekki öðlast meiri trú á sjálfa sig en álrisana, treysti ég ekki heldur stjórnmálamönnum til þess að breyta neinu í þessu efni, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.

Það dugir ekkert minna en vakning fólksins sjálfs og endurnýjuð trú á landið okkar og framkvæmdagleði þjóðarinnar með nýjum hugsunarhætti í atvinnu- og efnahagsmálum.“

Þetta segir Jónatan Þórmundsson. Ég vona að hann sé að hlusta á mig því að flokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur einarðlega staðið að baki þeirra hugsana sem hann ber fram, hér á þingi og hvarvetna annars staðar.

Frú forseti. Í glansbæklingi sem borinn var inn á hvert heimili á Norðurlandi, kostað af iðnaðarráðuneytinu segir: „Verið velkomin á opna kynningarfundi um álver á Norðurlandi.“ Sennilega mundi hæstv. ráðherra vilja vera kominn norður til að taka þátt í trúboðsferlinu.

,,Samráðsnefnd Fjárfestingarstofunnar,“ — hver á Fjárfestingarstofuna? (Gripið fram í: Ráðherrann.) Ráðherrann. (Gripið fram í: Nei, ráðherrann á hana ekki.) — ,,sveitarfélaga, atvinnuþróunarfélaga og Alcoa, boðar til opinna funda á Akureyri, Húsavík og í Skagafirði til að kynna áfanganiðurstöður aðgerðaáætlunar vegna 250.000 tonna álvers á Norðurlandi.“

Þetta er dæmigert fyrir vinnubrögð af hálfu iðnaðarráðherra, að fara um landið, etja byggðarlögum saman, halda fram einum valkosti sem stjórnvöld eru reiðubúin að standa að, þeim einum og engum öðrum og verja til þess fjármagni, áróðri og blekkingum. Hvað ætli hafi kostað að senda þennan bækling inn á hvert heimili á Norðurlandi? Hefðu ekki sveitarfélög á Norðurlandi frekar viljað fá þennan pening til atvinnusköpunar? (Gripið fram í.) Það þarf að greiða hann, frú forseti, og þó að lofsvert sé að prenta hann á Sauðárkróki eru ýmis önnur verkefni sem ráðherra hefði getað lagt til í þeim efnum.

Í bæklingnum er þeim stöðum á Norðurlandi sem til greina koma að leggja undir álver lýst. Það er fróðlegt að sjá. Þeir sem koma til greina eru, með leyfi forseta:

„Unnið hefur verið að margvíslegum könnunum varðandi þrjá staði sem helst þykja koma til álita fyrir nýtt álver á Norðurlandi, á Bakka við Húsavík, við Dysnes í Eyjafirði og við Brimnes í Skagafirði.“

Brimnes er skaginn sem gengur um miðjan fjörðinn sem Kolkuós stendur við. Jafnframt stendur í kynningunni að verði valinn staður fyrir álver einmitt við Kolkuós við Brimnes muni það þýða að leggja verði af byggð á stórum hluta þess svæðis, leggja af byggð á tveimur bæjum, Brimnesi og Laufskálum. Auk þess verður þeirri menningarlegu uppbyggingu sem nú á sér stað á Kolkuósi og þeirri miklu náttúruperlu sem þar er fórnað á altari álbræðslunnar ef af þessum fyrirætlunum verður.

Í blöðunum í dag er ein lítil frétt um hvað hafnir munu kosta í tengslum við þessar framkvæmdir. Það er talað um að ný höfn á Húsavík muni kosta á annan milljarð króna, sömuleiðis ný höfn á Akureyri. Það er ekki talað um hvað höfn í Skagafirði muni kosta.

Ég hef hér áður spurt: Hvers vegna mega þessi byggðarlög ekki fá þessa fjármuni og ráðstafa þeim sjálf, þá milljarða sem ríkisstjórnin og hæstv. iðnaðarráðherra er reiðubúin að verja til undirbúnings stóriðjuframkvæmda? Þá eru peningarnir til. Hvers vegna eru þessir peningar ekki bara látnir í hendur heimamanna og þeim leyft að ráðstafa þeim? Kannski að Húsvíkingar mundu þá ekki hugsa sig um áður en þeir fórnuðu Skjálfandafljóti, áður en þeir fórnuðu Aldeyjarfossi? Ef þeir fengju þennan milljarð eða tvo eða þrjá ætli þeir mundu þá ekki frekar nota þá til uppbyggingar annarra atvinnugreina, uppbyggingar þekkingarseturs, uppbyggingar ferðaþjónustu, uppbyggingar annars sem betur hentar til starfsemi þar og á alla möguleika. Sama mætti segja um Eyfirðinga. Ef þeir fengju milljarðana sem ríkið virðist reiðubúið til að verja til undirbúnings álframkvæmda og stóriðjuframkvæmda, ef þeir fengju þessa peninga mundu þeir byggja upp aðrar atvinnugreinar, háskólann sinn sem hafður er í fjársvelti, sjúkrahúsið og aðra fjölþætta atvinnustarfsemi, þ.e. ef þeir fengju að ráða. Sama má segja um Skagfirðinga. Ráðherra er reiðubúin að leggja milljarða króna í byggingu nýrrar hafnar og til rannsókna og annars undirbúnings fyrir álver. Ef Skagfirðingar fengju þessa peninga beint og mættu ráðstafa þeim milliliðalaust mundu þeir ekki verja þeim til byggingar álvers, frú forseti.

Hæstv. iðnaðarráðherra leggur ofurkapp á að troða í gegn þessu frumvarpi sem veitir henni auknar heimildir til að úthluta rannsóknar- og virkjunarleyfum til að undirbúa stórvirkjanir í Jökulsánum og víðar og til að undirbúa ný álver. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi ekki að veita ráðherra þessa heimild nú. Það er nóg undir. Fyrir liggja nægir virkjunarkostir sem hægt er að vinna úr. Því á ekki að hleypa af stokkunum undirbúningsferli fyrir fleiri virkjanir í bili, fleiri stórvirkjanir. Gefum okkur andrúm.

Sumar náttúruperlur eru svo mikilvægar að þeim á ekki að fórna. Það á ekki einu sinni á að veita leyfi til að hægt sé að rannsaka þær með það að augnamiði að virkja þær. Það mætti gefa út rannsóknarleyfi til þess að kanna mikilvægi líffræðilegs fjölbreytileika eða hvernig hægt sé að varðveita náttúruauðlindir sem best til framtíðar eða hvernig þær geta nýst við aðra atvinnuuppbyggingu, frú forseti. Vel mætti hugsa sér það, en þá af fullkominni virðingu fyrir því að þessar náttúruperlur, þessi náttúruvætti, eru undirstaða sívirks endurnýjunarferlis lífs. Stíflun Jökulsánna í Skagafirði mundi þýða að framburður þessara miklu jökulfljóta út í Skagafjörð, niður Eylendið og út í Skagafjörð, mundi stöðvast. Hvað vitum við hvaða áhrif það hefur? Það veit enginn. Hvers vegna erum við þá að hleypa af stað rannsóknum sem bjóða upp á ógn við þetta lífríki?

Frú forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur staðið með íbúunum í Skagafirði sem vilja stöðva hugmyndir um virkjanir í Jökulsánum í Skagafirði. Þann 29. janúar síðastliðinn samþykkti aðalfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í sveitarfélaginu Skagafirði ályktun sem lýtur að þessum málum og ég ætla, með leyfi forseta, að lesa hér upp: (Gripið fram í: Eru þeir sammála honum?)

„Aðalfundur VG í Sveitarfélaginu Skagafirði, haldinn 29. janúar 2006, fagnar þeirri fjölbreyttu uppbyggingu sem átt hefur sér stað í Skagafirði síðustu árin og áformum um miðstöð hátækniiðnaðar í héraðinu. Hins vegar hafnar fundurinn hugmyndum um álver við Kolkuós og stórvirkjanir í Skagafirði í tengslum við álbræðslu á Norðurlandi, sem eru andstæðar hagsmunum Skagfirðinga. Atvinnutækifærin felast í fjölbreytni og þekkingariðnaði en ekki einhæfum álbræðslum sem skaða möguleika annarra atvinnugreina ásamt því að ganga á náttúru landsins og aðra atvinnukosti til framtíðar. Enn fremur fagnar fundurinn ákvörðun um að þyrma Þjórsárverum og hvetur til þess að einnig verði komið í veg fyrir að Héraðsvötnunum og Jökulsánum í Skagafirði sem svo mjög móta ásýnd og ímynd héraðsins verði fórnað. Aðalfundur VG í Skagafirði leggst alfarið gegn öllum hugmyndum um virkjanir í Jökulsánum í Skagafirði og því að gert sé ráð fyrir slíkum framkvæmdum á aðalskipulagi Skagafjarðar.“

Það er rétt að rifja upp og minna á í þessu sambandi að nýlega var gerð skoðanakönnun meðal Skagfirðinga um hvernig þeir meta líf sitt og tilveru í Skagafirði. Fyrstu upplýsingarnar sem hafa komið fram um niðurstöðurnar benda á að yfirgnæfandi meiri hluti — mig minnir að það hafi verið 80–90% Skagfirðinga — var ánægður og stoltur yfir því að vera Skagfirðingar án (Gripið fram í.) stórvirkjana, án álvers. Það er rétt að gera sér grein fyrir því, frú forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra heldur að ánægjan felist öll í álverum. Það er borin von að ætla að breyta nokkru um, held ég, hjá hæstv. iðnaðarráðherra. En við getum enn staðið vörð um náttúruperlur landsins sem ekki á að fórna á altari álbræðslna iðnaðarráðherrans.

Frú forseti. Ég vil því við lok ræðu minnar um þetta mál leggja á það áherslu að frumvarpið sem hér er verið að þvinga í gegnum þingið, meira að segja svo að hæstv. iðnaðarráðherra verður að játa að 1. umr. hafi verið keyrð fram af misskilningi ... (Iðnrh.: Það var 2. umr.) Og, af því að hæstv. ráðherra bætir þessu við, 2. umr. líka af sama misskilningi, hálf 2. umr. Ekkert rekur á eftir því að veita ráðherra auknar heimildir til rannsókna og undirbúnings virkjana á vatnsföllum landsins. Fyrir liggja nægir valkostir nú þegar til að takast á við. Stóriðjuáformin sem nú eru uppi um auknar álbræðslur ganga þvert gegn hagsmunum atvinnulífsins, gegn fjölbreytni atvinnulífsins, gegn hagsmunum þjóðarinnar og gegn náttúrunni. Þess vegna á að stöðva þetta frumvarp.

Frú forseti. Ég vil í lokin að rifja aftur upp tilfinningar og hug Skagfirðinga til Héraðsvatnanna sinna sem þessu frumvarpi er beint gegn. Ég vil þó áður spyrja hæstv. ráðherra: Ef sú ólukka dynur yfir að þetta frumvarp verður samþykkt hér hvernig ætlar þá ráðherrann að vinna frekar úr málinu? Á nú þegar að úthluta rannsóknarleyfum á jökulvötnunum í Skagafirði, á Skjálfandafljóti? Hver verða næstu skref hæstv. ráðherra ef Alcoa krefst þess að fá að taka veð í virkjunum í Jökulsánum, virkjunum í Skjálfandafljóti, til að samþykkja álver sem verið er að pína Alcoa til að reisa á Norðurlandi? Hvernig ætlar ráðherrann þá að stíga næstu skref gagnvart þessum náttúruperlum? Getur hún svarað því?

Ég hef áður sagt hér á þingi, frú forseti, og segi enn að margar náttúruperlur sem nú á að ráðast á eru dýrmæt náttúruvætti fyrir þjóðina eins og þær nú eru og því á ekki einu sinni að leyfa útgáfu rannsóknarleyfa til virkjanaframkvæmda þar. Hvernig mundi ykkur líða að fara Vatnsskarðið, horfa yfir Skagafjörðinn þegar búið væri að stífla þar, búið væri að taka af flóðið, búið væri að taka af jökullitinn á vötnunum, og ætla svo að fara að syngja: „Skín við sólu Skagafjörður“? Ég held að enginn gæti hugsað þá hugsun. Þeir sem ekki hafa tilfinningu Skagfirðinga geta flippað eins og hæstv. ráðherra. En mér finnst það ... (Iðnrh.: Þetta er skemmtileg ræða ...)

Ég vil í lokin fara með síðasta erindi kvæðis sem Stefán Vagnsson frá Hjaltastöðum orti og heitir Minni Skagafjarðar. Þar heitir hann á landvættina í gamla Tindastól að standa vörð um Skagafjörð og náttúruvætti Skagafjarðar og hann endar ljóð sitt þannig, með leyfi forseta

Meðan „Vötnin“ ólgandi‘ að ósum sínum renna,

iðgrænn breiðist gróður um sléttur, hæð og laut,

geislar árdagssólar á bröttum tindum brenna,

blessun Drottins ríkulega falli þér í skaut.

Mun ég gera þessa bón skáldsins og bóndans Stefáns Vagnssonar á Hjaltastöðum að minni: Megi vötnin ólgandi að ósum sínum renna, Héraðsvötnin. Og gerist það mun blessun drottins ríkulega falla þér í skaut. Leyfi til rannsókna og leyfi til undirbúnings virkjunar Jökulsánna í Skagafirði á ekki að fela iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins.