132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Háskólar.

433. mál
[13:50]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um háskóla á þskj. 654, mál 433. Það er fjölmargt í þessu frumvarpi sem er afar áhugavert og tekið er á töluvert mörgum þáttum í háskólasamfélaginu og þá ekki síst gæðamálum og eftirliti sem er allt verulega til bóta. En það hefur komið fram hér í umræðunni að það eru þó nokkur atriði sem maður saknar í þessu frumvarpi og hefði viljað sjá að tekið væri á þegar á nú enn og aftur að taka heildrænt á stöðu háskólanna hér á landi. En ég vil byrja á því að segja að mér sýnist að öll vinnubrögð í þessu máli séu til mjög mikillar fyrirmyndar. Sett var á laggirnar fagleg nefnd sem var skipuð fólki víða að og menn hafa nálgast málið með þeim hætti. Ég verð að segja, maður verður að hrósa þegar vel er gert, að þetta frumvarp ber þess merki.

En ég sakna ákveðinna þátta, virðulegi forseti, og þá einkum tveggja. Ég sakna þess að ekki sé tekið á ákveðnum álitaefnum hvað varðar fjármögnun, sem félagar mínir hafa farið ágætlega í, þeir Einar Már Sigurðarson og Björgvin G. Sigurðsson. Ég sakna þess líka að ekki sé tekið fastar á stöðu háskólanna gagnvart rannsóknum. Mikið hefur verið rætt á undanförnum árum um stöðu háskólanna sem nú starfa hér á landi hvað varðar rannsóknir. Það er ekki jafnræði hvað varðar rannsóknarfé. Skólarnir hafa ekki setið við sama borð þar. Þeir hafa allir sótt það fast að fá aukið rannsóknarfé og hafa verið með sterka röksemdafærslu þar á bak við. Í tengslum við þetta hefur verið töluverð umræða um það hvort skilgreina eigi alla háskólana á Íslandi sem rannsóknarháskóla. Það er auðvitað stór menntapólitísk umræða hvernig háskólasamfélag og hvernig háskóla við viljum byggja hér upp til framtíðar og er gríðarlega mikilvæg. Ég sakna þess að á því sé ekki tekið í frumvarpinu með afgerandi hætti, þ.e. að í því endurspeglist einhver framtíðarsýn.

Í fyrsta lagi hefði ég viljað að þar yrði sett inn skýrt og skorinort að skólarnir eigi að sitja við sama borð þegar kemur að úthlutun rannsóknarfjár og í öðru lagi að betur væri skilgreint hvaða rannsóknarskyldur háskólar á Íslandi hafi. Það er alls ekki skýrt í frumvarpinu. Það er talað um rannsóknir en það er ekki skýrt kveðið á um hvaða skyldur skólarnir eigi að hafa í því sambandi. Við vitum að mikið hefur verið rætt um þetta á undanförnum árum og stefnuleysið hefur endurspeglast í ójöfnum framlögum á rannsóknarfé til háskólanna.

Virðulegi forseti. Í frumvarpinu er í athugasemdum um 1. gr. í greinargerðinni sagt, með leyfi forseta:

„Með hugtakinu æðri menntun er átt við alla menntun á háskólastigi hvort sem háskólarnir, sem hana veita, teljast vera hefðbundnir háskólar þar sem lögð er stund á kennslu og rannsóknir og skyld verkefni á breiðum grundvelli, háskólar með afmarkaðra starfssvið eða önnur skilgreind verkefni háskóla, fagháskólar eða kennslustofnanir án rannsóknarskyldu.“

Þetta er eini staðurinn í frumvarpinu þar sem maður sér í rauninni flokkun á mögulegum tegundum háskóla. Mér finnst að hér verði að koma fram hvert framhaldið eigi að vera. Er það hugmynd hæstv. menntamálaráðherra að hér verði kennslustofnanir með það hlutverk skilgreint og skýrt afmarkað, kennslustofnanir án rannsóknarskyldu? Er það sú leið sem við ætlum að fara í háskólamálum? Mér þætti vænt um að það kæmi skýrt fram við þessa umræðu vegna þess að frumvarpið skýrir það ekki. Það er mín skoðun að þeir háskólar sem nú eru á Íslandi séu allir með öflugt akademískt starf og hafi unnið til þess að fá myndarlegri rannsóknarstyrki. Ég tel að enginn þeirra gæti flokkast undir kennslustofnanir án rannsóknarskyldu, eins og nefnt er í athugasemdum við 1. gr.

Ég lýsi sem sagt, virðulegi forseti, eftir skýrari framtíðarsýn í þessum efnum. Er verið að tala um að flokka þær háskólastofnanir sem nú eru hér á landi með þessum hætti, eins og nefnt er hér í athugasemdunum? Eða er það markmiðið að í sérstökum samningum við þessa skóla verði jafnræðis gætt í framlögum vegna rannsókna?

Það er gríðarlega brýnt mál, virðulegi forseti, að þetta fáist skýrt í eitt skipti fyrir öll fyrir þá háskóla sem nú eru hér á landi vegna þess að allir hafa þeir metnað til aukinna rannsókna. Þeir standa auk þess frammi fyrir þeirri staðreynd að ef ekki eru öflugar rannsóknir stundaðar innan þeirra fá þeir hreinlega ekki kennara. Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi fyrir þessa skóla og þess vegna veldur það mér pínulitlum áhyggjum að sjá þá sundurliðun á tegundum skóla sem er í athugasemdunum um 1. gr.

Virðulegi forseti. Ég nefndi líka fjármögnun háskólanna. Það málefni nálgast menn ekki nógu vel að mínu mati í frumvarpinu, þar eru álitaefni sem taka verður á. Þar eru fjölmörg álitaefni. Það er kominn tími til að ræða það af alvöru hvernig við ætlum að fjármagna háskólastofnanir hér á landi, opinberu háskólana og líka hina einkareknu, til framtíðar, þannig að jafnræði ríki og að þessir skólar sitji við sama borð og keppi á jafnréttisgrundvelli hvað fjármagn varðar. Það er skekkja í fjármögnun þeirra núna til kennslunnar vegna þess að einkaskólarnir hafa heimild til að taka skólagjöld umfram fjárframlögin sem þeir fá frá hinu opinbera. Þau skólagjöld gefa þeim auðvitað forskot og í því sambandi er vert að hafa í huga að töluvert af þeim skólagjöldum kemur í gegnum Lánasjóð íslenskra námsmanna sem er rekinn af hinu opinbera. Það er augljóst að við verðum að fara að fá niðurstöðu í þessi mál.

Ég hefði talið að við svona heildarendurskoðun á háskólastiginu væri ekki hægt að segja, eins og hæstv. menntamálaráðherra hefur gert hér í dag, að fjármögnunin sé tekin út fyrir sviga, vegna þess að hún skiptir máli, hún er algjört grundvallaratriði. Þetta eru stórar menntapólitískar spurningar til framtíðar sem við stöndum frammi fyrir. Þegar svona mál er tekið og krufið eins og gert er núna, þá verður, virðulegi forseti, að taka málið allt upp í heild sinni. Það þýðir ekki að skilja viðkvæmu og óþægilegu málin eftir utan sviga og ræða þau ekki og segja að þau snerti ekki það mál sem hér er til umræðu, eins og hæstv. menntamálaráðherra ýjaði að í umræðu fyrr í dag.

Hægt er að nefna fjölmargt í þessu efni. Í því ljósi finnst mér rétt að taka upp umræðuna frá því í haust sem varð vegna tveggja skýrslna sem gerðar voru um stöðu Háskóla Íslands, fjárhagsstöðu hans og faglega stöðu hans. Annars vegar var það stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar og síðan gerðu samtök háskóla í Evrópu einnig úttekt á Háskóla Íslands. Þar er nefnilega komið inn á þessi stóru menntapólitísku atriði, þ.e. hvernig eigi að fjármagna Háskóla Íslands til framtíðar svo viðunandi sé. Báðar þessar úttektir á Háskóla Íslands sýndu berlega og komust að þeirri niðurstöðu að Háskóli Íslands væri verulega undirfjármagnaður. Þetta eru tvær óháðar úttektir sem gerðar voru og auðvitað ber að hlusta á þær. Í báðum þeim úttektum er því beint til stjórnvalda að þau skerpi á stefnu sinni og skerpi á sýn hvað fjármögnun háskólans til framtíðar varðar.

Það þarf náttúrlega ekki að nefna hvaða afleiðingar þetta gæti haft. Talað er um í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar hvaða áhrif þetta gæti haft fyrir Háskóla Íslands, þ.e. þetta langvarandi svelti. Ég vil því fá að bera hérna niður í skýrsluna og með leyfi forseta ætla ég að fá að lesa ákveðinn kafla sem mér finnst afar mikilvægur í þessari umræðu.

Þar segir:

„Ljóst er að stjórnendur Háskóla Íslands hafa gætt þess á liðnum árum að haga rekstri skólans í samræmi við fjárveitingar og aðrar tekjur sem hann aflar. Þá sýnist hann koma ágætlega út úr samanburði á hagkvæmni og skilvirkni sem gerður var við nokkra erlenda háskóla. Fjárhagsvandi háskólans er því ekki fólginn í stöðugum hallarekstri og skuldasöfnun heldur liggur fremur í að skólinn á óhægt um vik að mæta auknum kostnaði vegna fleiri nemenda, nýrra námsbrauta og dýrari starfsmanna án þess að það komi niður á gæðum kennslu og rannsókna. Einnig er hætt við að fjárhagsstaða skólans komi í veg fyrir að hann geti þróast sem öflugur rannsóknarháskóli með framhaldsnámi og rannsóknum sem standast alþjóðlegan samanburð.“

Þetta segir í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar og á þetta ber náttúrlega að hlusta vegna þess að álíka eða ekki ósvipaðar ábendingar eru gerðar í evrópsku úttektinni. Þetta eru auðvitað hin stóru menntapólitísku atriði, þ.e. hvernig við ætlum að búa að þessum opinberu háskólum. Því vil ég taka undir með félaga mínum, hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni, þegar hann sagði áðan að auðvitað hefði verið æskilegt að hafa sérlögin um þessa þrjá skóla hér til umræðu samhliða þessu máli þannig að við hefðum yfirsýn yfir það hvort verið væri að mæta að fullu þeim ábendingum sem koma fram í þessum tveimur mjög svo vönduðu úttektum sem gerðar voru á Háskóla Íslands sérstaklega. Þá yfirsýn höfum við ekki núna, þar sem þessi boðuðu sérlög um Háskóla Íslands eru ekki til umræðu hér.

Virðulegi forseti. Í lokin vil ég nefna að ef þetta heldur svona áfram er hætt við því að við förum að sjá í auknum mæli í Háskóla Íslands mögulega það sem gerðist í Háskólanum á Akureyri, að deildum og námsleiðum verði fækkað vegna þess að ekki er nægt fjármagn til að reka skólann eins og hann er. Það tel ég vera grafalvarlegt mál vegna þess að Háskóli Íslands hefur það hlutverk að bjóða upp á mjög breitt akademískt nám. Þar erum við að tala um fög, greinar og fræðasvið sem ekki eru í samkeppni við aðra háskóla og er einungis kennt í Háskóla Íslands. Þarna erum við að tala um guðfræði, rússnesku, japönsku og önnur tungumál, við erum líka að tala um raungreinarnar. Við erum að tala um akademískt nám í stærðfræði og raungreinum. Öllum þessum litlu fögum og litlu deildum má ekki gleyma í allri þeirri umræðu og allri þeirri áherslu sem hæstv. menntamálaráðherra leggur á samkeppni milli skóla. Þess vegna vil ég draga það fram að samkeppni milli skóla er bara á takmörkuðum fræðasviðum. Hún er ekki á nærri því öllum sviðum og því megum við ekki gleyma þegar verið er setja lög um háskólastigið í heild. Við verðum að taka tillit til slíkra þátta. Þarna skiptir fjármögnunin auðvitað verulegu máli en sömuleiðis skiptir einnig máli að pólitískur vilji sé til þess að standa vörð um þessar minni fræðigreinar sem eru ekki í samkeppni um nemendur milli skóla því að þær eru ekki síður mikilvægar.

Ég trúi því ekki að það sé sýn manna til framtíðar að fækka eigi greinum sem kenndar eru, en ég er ansi hrædd um að það geti gerst. Og miðað við það sem sagt er í báðum þessum úttektum um Háskóla Íslands er ansi hætti við því.

Virðulegi forseti. Ég gat ekki sleppt því að ræða aðeins um fjármögnunina þó að vel hafi verið farið yfir það fyrr í dag. En ég vil ítreka þá ósk mína til hæstv. menntamálaráðherra að hún skýri betur framtíðarsýn sína hvað rannsóknirnar varðar og svari skólunum því, þeim háskólum sem nú starfa hér á landi og eru allir mjög öflugir rannsóknarháskólar má segja þrátt fyrir að þeir fái lítið fjármagn frá hinu opinbera og byggja framtíð sína á því að fá viðurkenningu sem slíkir. Hið opinbera viðurkennir þá sem slíka í dag með því að veita þeim fjármagn til rannsókna en núna þarf meira að koma til. Þess vegna vil ég heyra frá hæstv. menntamálaráðherra svör við því hvort sundurliðanir á gerðum háskóla, eins og ég nefndi áðan, eigi við um einhverja af þeim háskólum sem nú eru starfandi eða hvort þetta sé framtíðarsýn óháð þessum skólum.