132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[16:31]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er greinilega ekki hægt að taka þessa umræðu neitt lengra vegna þess að hæstv. ráðherra þrástagast bara á sínum hlutum og virðist ekki vilja ræða málefnalega um þetta efni. Fer svo yfir í bókun minnihlutastjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem er í raun og veru algert aukaatriði í þeim málflutningi sem ég hef hér viðhaft vegna þess að þar er í raun og veru ákveðin deila milli meiri hluta og minni hluta hvar mörkin eru um það hvenær gengið er á sjálfsforræði sveitarfélaganna. Það er algjörlega skýrt í bókun meiri hlutans að sú breytingartillaga sem þeir lögðu fram er forsenda þess að þeir geti sagt að það sé ekki verið að ganga á sjálfsforræði sveitarfélaganna. Þessi breytingartillaga liggur ekki fyrir. Hún er ekki í frumvarpinu. Þar af leiðandi er að áliti allra í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga verið að ganga á sjálfsforræði sveitarfélaganna. Það hlýtur því að vera eðlilegt að óska eftir því, það er hægt að gera það nú þegar, að fulltrúar úr stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga komi á fund menntamálanefndar og fari yfir umsögn sína og skýri málið.

En, frú forseti, mér heyrist ekki vera vanþörf á því að hæstv. ráðherra kalli einnig formann Sambands íslenskra sveitarfélaga, þ.e. oddvita Sjálfstæðisflokksins í framboðinu til borgarstjórnar, á sinn fund og þau flokkssystkinin ræði um sjálfsforræði sveitarfélaga vegna þess að það er auðvitað afskaplega mikilvægt að hæstv. ráðherra sem fer með þann málaflokk sem er hvað stærstur í útgjöldum sveitarfélaganna átti sig á því hvað sjálfsforræði sveitarfélaganna er. Og fara síðan að tala um að það eigi að tryggja það í lögum frá Alþingi að nemendur í skólum, reknum af öðrum en sveitarfélögum, eigi að fá trygg fjárframlög. Ég spyr: Hver er vandinn? Ég nefndi hér dæmi áðan sem hefur sýnt fram á að í lögum er ekkert vandamál að gera slíka samninga.

Þannig að hæstv. ráðherra hefur því miður farið undan í flæmingi en ég vona að hæstv. ráðherra átti sig á því að með að eiga t.d. fund, með oddvita (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurborg þá væri hugsanlega hægt að eyða ýmsum misskilningi.