132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Grunnskólar.

447. mál
[18:20]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það verður að segjast eins og er að hv. þingmaður fer nokkuð óvarlega með orð og vegna okkar sem erum vön að ræða skólamál á öðrum nótum verð ég að biðja hv. þingmann að gæta hófs í orðavali. Við notum yfirleitt aldrei hugtakið að mismuna nemendum í því samhengi sem hv. þingmaður gerði. Það er bara ekki viðeigandi, málið snýst um allt, allt annað.

Ég hef sagt það áður í umræðunni að ég tel að skólar reknir af öðrum en sveitarfélögum eigi fullan rétt á sér og við eigum að huga að því að fjölga þeim eins og kostur er. Ég hef hins vegar ekki séð þennan vanda sem hv. þingmaður er að ræða um og hann vitnar auðvitað í tveggja manna tal o.s.frv. og ég get ekkert rengt hann um það, hef enga ástæðu til þess. En stór eru orðin, það er gengið á milli bols og höfuðs á þeim aðilum sem koma að rekstri slíkra skóla í höfuðborginni. Það er auðvitað vont ef satt er og ég hefði getað dregið þá ályktun að þeim skólum sem reknir eru með því formi hefði snarlega fækkað en ég hef nú ekki orðið var við að þeim hafi fækkað. Ég hef hins vegar heyrt fréttir af því að það hafi farið fram samningaviðræður og fjármagn hafi verið aukið til þeirra, ekki alls fyrir löngu og ég vona að það sé enn verið að vinna í því.

En, frú forseti, vegna þess að það er stöðugt að koma betur í ljós í ræðum hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins að þetta er greinilega einhver herferð gegn meiri hlutanum í Reykjavík og það er augljóst að það er örstutt í sveitarstjórnarkosningar, þá skil ég ekki alveg hvernig á því stendur ef þetta mál er svona brennandi, af hverju þeir leiðbeina ekki frambjóðendum flokksins í Reykjavík með það að gera þetta að sérstöku kosningamáli. Þetta er málefni sveitarfélagsins og á að vera þar uppi á borðum. Það er gengið svo langt að það er meira að segja valtað yfir oddvita Sjálfstæðisflokksins í framboði til borgarstjórnar í Reykjavík. Hann hefur lýst því yfir að með þessu frumvarpi sé gengið yfir sjálfsforræði sveitarfélaganna. Það er alveg með ólíkindum hvað mikið liggur undir. Treysta menn ekki frambjóðendum flokksins í Reykjavík í kosningunum í vor? Eru menn búnir að gefa sér tapið fyrir fram í málinu?