132. löggjafarþing — 58. fundur,  2. feb. 2006.

Æskulýðslög.

434. mál
[18:35]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég fagna því að hér skuli komið heildstætt frumvarp til æskulýðslaga. Af hverju ber að fagna því? Ég vil skoða það í tengslum við þróunina í samfélaginu á síðustu árum og áratugum þar sem staða barnsins, hefur breyst. Meginreglan er sú að báðir foreldrar vinni úti, uppeldishlutverkinu hefur að nokkru leyti verið varpað yfir á skólana. Samhliða þessu hefur veruleg tækjavæðing orðið á hverju einasta heimili þar sem börn hafa almennt aðgang að netinu og hafa eigin myndbandstæki, hljómflutningstæki o.s.frv. Það er því algengt að börn lifi í sínum heimi þegar þau eru heima við.

Þetta er kannski að mörgu leyti eðlileg þróun en að sumu leyti hefur samfélagið ekki brugðist við breytingunum. Börnin eru minna í samskiptum við fullorðna. Maður hefur mestar áhyggjur af því — ég hef ekki áhyggjur af því að skólafólk sinni ekki uppeldishlutverki sínu vel — að börnin sökkvi sér í annan heim sem á sinn þátt í að móta gildismat barnanna að sumu leyti, þar sem þau hafa frjálsan aðgang að neti og öðrum hugarheimi.

Ég lít svo á að frumvarpið sem hér er flutt sé átak til að koma á og stuðla að heilbrigðri æskulýðsstarfsemi, þ.e. átak gegn því umhverfi sem að sumu leyti er mjög spennandi og æskilegt en hefur skuggahliðar. Með þessu yrði efnt til átaks í því að börn alist upp í því sem kalla mætti heilbrigt umhverfi, þar sem þau njóta samvista, hvert við annað, í leik og starfi undir leiðsögn „sérfræðinga“ á því sviði, þ.e. fólks með menntun á þessu sviði eins og áhersla er lögð á í frumvarpinu. Því ber að fagna að slíkt frumvarp hafi verið lagt fram og ég túlka það sem átak í heilbrigðri æskulýðsstarfsemi. Hvað er betra nokkurri þjóð en heilbrigð æska?

Augljóslega liggur mikil vinna að baki þessu frumvarpi. Þá ágætu vinnu ber að þakka. Með málinu er í raun mörkuð stefna, eru lagðar línur fyrir samfélagið að vinna eftir, ekki sem boðvald heldur sem leiðbeiningar. Gert er ráð fyrir því að margir komi að, samfélagið allt, hið opinbera, heimilin, skólarnir og hin einstöku frjálsu félög sem sinna tómstundum barna og unglinga. Frumvarpið markar stefnu í þeim málum.

Að sumu leyti má segja að þessi mál hafi verið nokkuð laus í reipunum. Margir hafa verið að sinna þessum þætti nokkuð ómarkvisst. Því miður hafa komið upp tilvik þar sem óæskilegir aðilar hafa smeygt sér inn á þennan vettvang, þar sem börn og unglingar eru. Það er afar mikilvægt að vernda saklaus börn gegn slíkum aðilum en jafnframt er mikilvægt að utan um hópa í æskulýðsstarfi haldi fólk með þekkingu, menntun og reynslu til að beina þeim inn á þær brautir. Það er augljóslega markmið frumvarpsins og því ber að fagna.

Þá er ánægjulegt að sjá minnst á Æskulýðssjóðinn og með hvaða hætti hið opinbera ætlar að leggja sitt af mörkum til þess að efla heilbrigða æskulýðsstarfsemi. Ég vil ekki gera minna úr rannsóknarþættinum. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hve mikilvægt er að stunda rannsóknir á öllum sviðum til að hægt sé að bæta, breyta og ná fram betri árangri.

Ég tek líka undir þau sjónarmið sem viðruð eru í frumvarpinu og ég nefndi áðan, um að leggja áherslu á menntun og þjálfun þeirra sem gefa sig í þetta gífurlega mikilvæga starf, að vinna með æsku landsins að heilbrigðri uppbyggingu. Ég tel að með þessari stefnumörkun, þessu átaki sé lagt til atlögu inn á mjög heilbrigðar brautir með það að markmiði að efla sjálfstæða einstaklinga í heilbrigðu umhverfi, með það að markmiði að gildismat barna okkar verði heilbrigt og þar muni hinir eldri miðla af reynslu sinni.

Ég þarf í sjálfu sér ekki að segja fleira. Ég árétta að ég fagna því að frumvarpið skuli komið fram. Ég vona og býst ekki við öðru, en það fái hraða og góða meðferð í menntamálanefnd.

Að lokum vildi ég varpa fram hugmynd í umræðuna, sem er reyndar ekki mín heldur frá ágætu fólki sem hefur kynnt sér málið. Við þekkjum að foreldrar vilja gjarnan að börn þeirra taki þátt í ýmsu tómstundastarfi, í íþróttahreyfingunni, í tónlistarskólum og ýmsu öðru sem kalla má æskulýðsstarf. Því fylgir gjarnan mikill kostnaður. Öll þekkjum við dæmi þess að það hafi háð efnahag sumra heimila, kannski of margra, að geta ekki leyft börnum sínum að taka þátt í slíkri starfsemi vegna kostnaðar. Í nokkrum löndum, bæði í nokkrum fylkjum Kanada og Bandaríkjanna, og örugglega í einhverjum löndum Evrópu þótt ég viti ekki dæmi þess, hefur sú leið verið farin að opna fyrir þann möguleika að foreldrar geti lagt fram nótur og fengið skattafslátt gegn því að börn þeirra hafi tekið þátt í slíkri viðurkenndri starfsemi.

Þetta er að sjálfsögðu vandmeðfarið. Það þarf að skilgreina hvað átt er við með heilbrigðri starfsemi, hvernig eigi að leyfa slíkt og hvernig skuli útfæra þetta. Samhliða er gert ráð fyrir því að foreldrar leggi fram með skattframtali sínu viðurkenndar nótur fyrir kostnaði sem þeir hafa lagt í slíkt.

Ég tel vert að skoða þessa leið þótt það heyri að sjálfsögðu ekki undir þetta frumvarp. En í umræðum um það og vinnslu menntamálanefndar væri a.m.k. einnar messu virði að skoða þá aðferð. Með henni mundi samfélagið, hið opinbera, beinlínis fjárfesta í heilbrigðri æskulýðsstarfsemi, gæfi heimilum kost á að vera með í leiknum, ef svo má að orði kveða, en þurfi ekki að láta fjárhaginn stjórna því alfarið. Þetta finnst mér skynsamleg leið vegna þess að hún hefur beina skírskotun til barna. Hún hvetur til þess að foreldrar sendi börn sín í heilbrigða og uppbyggjandi æskulýðsstarfsemi. Það er að sjálfsögðu góð fjárfesting, langtímafjárfesting fyrir samfélagið allt. Af þessu yrðu ekki eru bein fjárútlát ríkisins heldur afsláttur af sköttum sem væri athyglisverð stefnumörkun.

Frú forseti, ekki meira um það. Ég árétta að ég tel frumvarpið vel undirbúið og trúi að það muni fá skjóta afgreiðslu menntamálanefndar.