132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Íslensk leyniþjónusta.

[15:13]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Í fjölmiðlum hefur komið fram að hæstv. dómsmálaráðherra sem, eins og þingheimur þekkir, er annálaður áhugamaður um að komið verði á fót íslenskum her hafi hreyft hugmynd sem hefur yfirbragð þess að ráðherrann vilji einnig að á laggirnar verði sett nokkuð sem kalla mætti íslenska leyniþjónustu. Sjálfur kallar hæstv. ráðherra Björn Bjarnason það greiningardeild hjá embætti ríkislögreglustjóra sem hafi m.a. með landráð að gera.

Nú segir í 5. gr. lögreglulaga að starfrækt skuli lögreglurannsóknardeild sem rannsaki landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og aðstoði lögreglustjóra við rannsókn alvarlegra brota. Þetta er reyndar fyrirkomulag sem hefur verið gagnrýnt, mönnum hefur þótt skorta á tengsl og aðhald, t.d. frá Alþingi, hvað þetta snertir.

Nú vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. dómsmálaráðherra Björns Bjarnasonar hvað raunverulega vaki fyrir honum.