132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Loðnuveiðar.

[15:48]
Hlusta

Sandra Franks (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að hrósa hæstv. ráðherra fyrir að hafa nýlega sett reglur sem takmarka loðnuveiðar í flotvörpu á afmörkuðum svæðum. Það er afar mikilvægt hagsmunamál að loðnustofninn viðhaldi stöðugleika sínum og verði fyrir sem minnstum skaða vegna ágangs þeirra skipa sem sækja loðnu í flotvörpu. Skaðsemi loðnuveiða í flotvörpu er ótvíræð að áliti þeirra skipstjórnarmanna sem ég umgengst og stundað hafa loðnuveiðar í áratugi. Þeir telja að veiðar í flotvörpu drepi mun meira af loðnu en það sem skilar sér um borð í skipin. Enn fremur telja þeir að veiðar með flotvörpu hafi áhrif á hegðun loðnu sem er að koma upp að landinu til hrygningar. Hún tvístrist og dreifi sér og skili sér ekki eins vel á hrygningarstöðvarnar. Rannsóknir á loðnustofnunum hafa verið umdeildar og töluverð óvissa er um þær rannsóknaraðferðir sem notaðar eru eins og reynsla síðustu ára hefur sýnt með ótvíræðum hætti.

Forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji það koma til greina að banna allar loðnuveiðar í flotvörpu á íslenskum skipum líkt og hann hefur gert með nýrri reglugerð um erlend skip í íslenskri lögsögu. Felst ekki raunveruleg fiskvernd í því að láta náttúruna njóta vafans og banna alfarið loðnuveiðar í flotvörpu á meðan verið er að rannsaka áhrif þessara veiða á loðnustofninn?