132. löggjafarþing — 59. fundur,  6. feb. 2006.

Stjórn fiskveiða.

448. mál
[16:30]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil a.m.k. að það liggi alveg fyrir að með því sem ég sagði áðan var ég engan veginn að slá því föstu að það verði niðurstaðan fyrir næsta fiskveiðiár að þessum aflabótum verði úthlutað. Ég sagði eingöngu að það kæmi alveg til greina og væri eitthvað sem við þyrftum að skoða.

Ég var hins vegar líka að vekja athygli á þeim annmörkum sem eru sannarlega á þessu. Í fyrsta lagi að þeir sem eru með aflaheimildir í rækju hafa ekki verið að borga í þann pott sem notaður hefur verið til að standa undir úthlutun til þessara byggðakvóta. Í annan stað tel ég að ef menn ætla að fara að gera þetta er væntanlega um að ræða úthlutun upp á einhver þúsund tonn og þá yrðu menn auðvitað að skerða aðra. Ég vakti síðan athygli á að þannig stendur á varðandi þetta að þeir sem eru stærstir í rækjunni eru líka margir hverjir mjög stórir í bolfiskinum. Við þurfum að skoða alveg til hlítar hvort hér væri þá ekki eingöngu um að ræða aflatilfærslu milli hægri og vinstri vasans og hver yrði hin raunverulega niðurstaða. Við eigum að skoða þetta í heild því að vandinn er ekki bara rækjuveiðamegin heldur líka vinnslumegin og þar eru því miður miklu færri úrræði af hálfu hins opinbera til að bregðast við.