132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

57. mál
[19:13]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S):

Frú forseti. Frumvarp svipaðs efnis var lagt fram á síðasta þingi skömmu eftir áramót. Ég hafði þá leitað eftir því hvort samkomulag gæti um það tekist að málinu yrði vísað til nefndar án umræðu þar sem frumvarp hæstv. umhverfisráðherra um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum hafði þá komið til umræðu og hafði verið vísað til umhverfisnefndar. Tveir nefndarmenn í umhverfisnefnd biðu lengi dags til að kveðja sér hljóðs um málið til að koma í veg fyrir að það fengi þinglega afgreiðslu. Það vekur athygli mína nú að hvorugur þessara hv. þingmanna skuli vera í salnum úr því að þeim hefði þá gefist kostur á að ræða málið. Hefði mér satt að segja fundist það viðkunnanlegt jafnmikinn áhuga og þeir sýndu á því fyrir einu ári að málið kæmi ekki til umræðu og höfðu kvatt sér hljóðs af þeim sökum. Þetta minnir okkur auðvitað á að það er vissum annmörkum háð fyrir okkur óbreytta þingmenn að koma málum til nefndar. Þetta frumvarp var lagt fram á fyrsta degi þingsins og hafði ég satt að segja búist við að það gæti komið til umræðu a.m.k. í janúarmánuði en það kemur ekki að sök. Það verður hægt að vísa málinu til nefndar og það verður hægt að senda það til umsagnar í febrúarmánuði og taka það þá til efnislegrar meðferðar í umhverfisnefnd í fundarhléi sem verður um mánaðamótin febrúar/mars. Þá gefst þessum hv. þingmönnum tækifæri til að skeggræða frumvarpið.

Þetta frumvarp er einfalt í sniðum. Hvatinn á bak við það er að gengið hefur fram af mér hversu óheft ásókn er orðin í fuglaveiðar á ýmsum svæðum á landinu sem er eðlilegt með hliðsjón af því að hóteleigendur eða þeir sem standa fyrir bændagistingu eða hvað við nú köllum það — ég er ekki að tala niður til bændagistingar, ég er að tala um þá sem annast þjónustu við ferðamenn — hjá sumum hverjum þeirra manna og kvenna er það orðin veruleg tekjulind að veita veiðimönnum þjónustu, ekki aðeins laxveiðimönnum og silungsveiðimönnum heldur einnig rjúpnaskyttum, gæsaskyttum eða andaskyttum. Þess eru dæmi að heilu landsvæðin hafi verið boðin út hæstbjóðanda til fuglaveiða til að þeir sem hagsmuna hafa að gæta geti með skipulegum hætti beitt veiðimönnum á landsvæðin. Geta menn þá ímyndað sér hver ásóknin verður þegar þeir sem hafa keypt þessar landspildur af landeigendum þurfa að standa undir kostnaði við útboð, kostnaði við rekstur og annað því líkt. Raunar er mjög líklegt ef menn bjóða verulegar fjárhæðir, miðað við efnahag sjálfs sín, í slíkar veiðilendur að þá hljóti þeir að fylgja vel eftir til þess að hafa þann hagnað af fuglaveiðunum sem þeir hugsuðu sér, og er engin launung á því að undir vissum kringumstæðum eru fuglaveiðar orðnar verulegur þáttur í lífsframfærslu slíkra manna og kvenna. Fyrirgangurinn hefur verið svo mikill að menn hafa ekki gætt sín í auglýsingum og kynningum á starfsemi sinni. Þannig má sjá það á netinu að kunnur leiðsögumaður erlendra ferðamanna heldur á tveimur eða þremur stokkandarsteggjum í fanginu, sennilega vegna þess að hann hefur ekki þekkt þær andir. Sömuleiðis er dæmi um það að kunnur veiðimaður, sem oft lætur mjög til sín taka, kom með önd, ég hygg að það hafi verið til Náttúrufræðistofnunar, sem breyttist í æðarkollu þegar hún hafði verið tekin úr pokanum. Þetta sýnir okkur og sannar að veiðimenn eru ekki alltaf vissir um hvað þeir eru að skjóta og kem ég að því síðar. Ég vil þó í þessu sambandi taka fram að með þessu frumvarpi er ekki lagt til að banna fuglaveiðar, enda má segja að fuglaveiðar eigi sér mikla hefð hér á landi og að minni hyggju yrði þá of langt gengið.

Ástæðan fyrir því að ég hef sérstaklega beitt mér fyrir því að stytta veiðitíma anda er auðvitað sú að mér þykir fulllangt gengið að þær skuli ófriðaðar hér á landi fram undir vor. Samkvæmt 17. gr. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum er heimilt að veiða endur frá 1. september til 31. mars eða í sjö mánuði, meiri hluta ársins, og geta má nærri hvaða aðfarir eru við veiðarnar þegar skammdegið er mest og eftir áramótin. Þá hefur í venjulegu árferði flest vötn lagt og í þeim fáu lænum sem opnar eru safnast endurnar saman, þar liggja veiðimenn fyrir þeim og sérstaklega þó eftir að fer að rökkva til að geta falið sig sem best og líka vegna þess að þá er von á öndunum ofan af heiðum. Þetta þekkjum við og hitt vitum við líka, venjulegir alþingismenn, vísindamenn, þeir sem eiga að fylgjast með veiðum hér á landi, veiðimenn sjálfir og hæstv. ráðherra, að ógerningur er að þekkja endur í sundur svo öruggt sé eftir að fer að rökkva þegar þær fljúga hratt yfir og menn beina byssum sínum að þeim.

Af þessum sökum hef ég lagt til, frú forseti, að við 17. gr. bætist ný grein, svohljóðandi: Óheimilt er að veiða fugla frá sólarlagi til sólaruppkomu. Þetta orðalag er kunnugt í fánalögum og er enginn vafi á hvað um er að ræða, enda vandalaust fyrir hv. nefnd að kveða frekar á um þetta orðalag ef hún getur fallist á hugmyndina.

Ég hafði sagt það í blaði, þegar þetta frumvarp kom fram, að nú væru komnir nætursjónaukar á byssur svo auðveldara væri að hæfa og hitta fugla en áður var, sem gaf tilefni til þess að spaugsamir veiðimenn hæddu mig fyrir að vera ekki betur að mér um vopnabúnað til heiða en svo að ég héldi að slík tæki væru notuð við fuglaveiðar. Má vera og er vonandi að ég hafi þar rangt fyrir mér en það rökstyður þá enn frekar en ella að enginn getur verið því mótfallinn að þetta ákvæði bætist inn í lögin ef ekki er um það að ræða að fuglar séu skotnir í hálfrökkri hvort sem er. Ég gat ekki fundið annað af þeim viðræðum sem fóru fram í fjölmiðlum en að í orði kveðnu væru veiðimenn mér sammála um að ekki næði nokkurri átt að skjóta fugla í hálfrökkri svo ég vona að nefndin fallist þá á það sjónarmið, sem er þá bæði mitt sjónarmið og veiðimanna, að óheimilt skuli, enda ástæðulaust, að veiða fugla frá sólarlagi til sólaruppkomu, auk þess sem það þekkist ekki hér á landi eftir þeim tölvupósti sem mér hefur borist og eftir því sem ég hef heyrt og lesið í fjölmiðlum.

Í 1. gr. þessa frumvarps er lagt til að ný málsgrein bætist við 8. gr. laganna, svohljóðandi: Landeigendum er óheimilt að selja skotveiðimönnum heimild til að skjóta fugla á landareign sinni. Þá er skotveiðimönnum óheimilt að bjóða fé fyrir slíka heimild.

Þetta er nokkuð róttæk tillaga en það er ekki nýtt í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum að bannað skuli að bjóða fram fé fyrir bráð eftir að hún hefur verið veidd. Ég hygg að menn geti svo velt vöngum yfir því hvaða afleiðingar það muni hafa ef svo heldur fram að í vaxandi mæli og með þyngri áherslu og skipulegri hætti skuli veiðiferðir skipulagðar hér á landi, bæði fyrir erlenda menn og innlenda, hvort ekki sé þá veruleg hætta á að of nærri fuglastofnum verði gengið. Það hefur engin athugun farið fram á því hvar gæsir eða endur eru mest skotnar. Við erum í litlum færum um að gera okkur grein fyrir ágangi veiðimanna á einstökum svæðum. Við vitum að þegar landnámsmenn komu hingað settur þeir í lög ítölu á afréttarlönd vegna þess að þeir gerðu sér grein fyrir að ella eyddist gróður ef ofbeitt væri ár eftir ár. Við vitum líka að lengi hafa verið í gildi ströng ákvæði um veiðar í vötnum og ám. Menn gera sér grein fyrir því að ekki gengur endalaust að fjölga veiðimönnum og hið sama á að sjálfsögðu við um skotveiðimenn. Ekki gengur að heimilt sé að hleypa fleiri og fleiri skotveiðimönnum inn á sama landsvæðið til fuglaveiða. Auðvitað hlýtur fuglinn að flýja undan, verða styggur, en eitthvert verður hann að leita og slíkar skipulegar veiðar hvarvetna hljóta að enda með því að fuglastofninn skerðist verulega. Auðvitað má líka segja að hér sé kannski of langt gengið af minni hálfu en þessi breytingartillaga er hér sett fram til að undirstrika nauðsyn þess að eitthvert hóf verði haft á veiðunum og menn geri sér grein fyrir að ekki sé endalaust hægt að fjölga byssum á viðkvæmum svæðum.

Í 2. gr. er breytingartillaga við 2. málsl. 17. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við veiðar er m.a. óheimilt að nota: Vélknúin farartæki, nema báta á sjó til fuglaveiða enda gangi þeir ekki hraðar en níu sjómílur meðan á veiði stendur. Vélknúin farartæki á landi, önnur en vélsleða, fjórhjól og önnur torfærutæki, má nota til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum og þá eingöngu á vegum eða merktum vegaslóðum. Skotvopn skulu vera óhlaðin meðan á akstri stendur. Þau skulu einnig vera óhlaðin nær vélknúnu farartæki á landi en 250 m.“

Þessi orð „merktum vegaslóðum“ vakti athygli mína og ég hef spurst fyrir um það, bæði hjá vegamálastjóra og eins hjá veiðistjóra, hvað átt sé við með þessum orðum. Það kemur í ljós, frú forseti, að hugtakið merktir vegaslóðar er ekki til, hvorki í reglugerðum né lögum. Ég man á hinn bóginn eftir því að við umræður um þessi mál var mjög mikið upp úr þessum orðaleppum lagt. Ég álít óhjákvæmilegt að nánar verði kveðið á um þetta og þess vegna legg ég til að á eftir orðunum „eða merktum vegaslóðum“ komi þessi tilvísunarsetning: sem taldir eru upp í reglugerð sem ráðherra setur. Þá geta löghlýðnir veiðimenn flett upp í reglugerðinni og gert sér grein fyrir því hvar þeir mega aka tækjum sínum. Hinir sem láta sig það engu skipta hvað leyft er og hvað ekki er leyft, munu að sjálfsögðu eftir sem áður halda sína leið.

Í 3. gr. frumvarpsins legg ég til að á eftir 2. tölul. 1. mgr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Umhverfisráðherra getur í reglugerð, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands, aflétt friðun eftirtalinna fuglategunda innan þeirra tímamarka er hér segir:“

Eins og lögin eru nú er gert ráð fyrir því að heimilt sé að skjóta stokkönd, urtönd, rauðhöfðaönd, duggönd, skúfönd, hávellu og toppönd frá 1. september til 31. mars.

Nú hygg ég að flestum hv. alþingismönnum sé kunnugt að sumar þessar tegundir eru mjög gæfar þar sem þær fá að vera í friði. Þetta eru fallegar endur og nær auðvitað engri átt að þær skuli eltar árið um kring að kalla. Ég legg til að stytta veiðitímabilið um þrjá mánuði þannig að það nái einungis til áramóta og get ekki undir neinum kringumstæðum skilið að slík tillaga eigi ekki meirihlutafylgi á Alþingi. Ég hef rætt málið einstaklega við fjölmarga þingmenn og verð ekki var við annað en þeir hafi vissa andúð yfirleitt flestir hverjir á andaveiðum og má raunar segja að hið sama gildi um flesta landsmenn.

Ég hef undanfarin ár reynt að gefa mér tíma til þess á vorin að fara niður með Skjálfandafljóti, að Mývatni eða á aðra þá staði þar sem við því er að búast að maður geti séð endur með unga sína fram í Eyjafirði og víðar og er satt að segja hryggur yfir því hversu styggar þær eru, sem er kannski eðlilegt þegar horft er til þess að andaveiðimönnum fjölgar nú frá ári til árs. Þetta er enn hörmulegra þegar við höfum jafnframt í huga að dregið hefur úr minkaveiðum og refaveiðum þannig að endur eiga hér á landi litlum skilningi og lítilli vináttu að fagna eftir áramótin þegar, eins og ég sagði áður, vötn eru flest lögð. Endur eru mjög auðveiddar í raun og veru.

Ég vona að hv. umhverfisnefnd hafi dugnað í sér til að gera annaðhvort, að leggja til að þessi tillaga verði samþykkt eða sýna manndóm til að láta frumvarpið aftur koma hingað fyrir Alþingi og geta þá alþingismenn greitt atkvæði um hvort þeir telji skynsamlega tillögu á ferðinni eða ekki. Ég fullyrði að Íslendingar eru í vaxandi mæli á ferðalögum sínum um landið farnir að njóta fuglalífs og fuglaskoðunar. Við vitum einnig að sumir hóteleigendur og sumir sem standa að rekstri ferðaþjónustu leggja mikið upp úr fuglaskoðun svo að hér er ekki um hégómamál að ræða hvernig sem á það er litið.

Í b-lið þessarar greinar legg ég til að ætíð sé heimilt að skjóta kjóa og skúm nærri æðarvarpi. Ekki þarf heldur að rökstyðja nauðsyn þess. Skúmi hefur fjölgað mjög mikið hér á landi á síðustu áratugum. Hann er svo sannarlega vargur í véum og raunar óskiljanlegt hvernig á því getur staðið að tillaga af þessu tagi skuli ekki fá náð fyrir augum þeirra sem bera ábyrgð á eftirliti með vernd, friðun og veiðum á villtum fuglum. Það er síður en svo hætta á því að skúmurinn sé í útrýmingarhættu eins og ég hef heyrt einhvern halda fram, útbreiðsla hans verður meiri og meiri og geta menn gengið úr skugga um það hvort sem menn fara í Grímsey á vorin eða snemma sumars, upp á Hólsfjöll eða hvert menn vilja fara. Bóndinn á Sandi sagði mér frá því í fyrra sem mér þótti skemmtilegt, að fálki hefði komið og rekið skúminn á brott úr andavarpinu við Skjálfandafljót og verið snöggur að því sem sýnir að að þessu leyti gengur hann vasklegar fram en við mennirnir.

Ég vil í þessu sambandi einnig minna á að þegar þessi mál voru til umræðu sl. vetur, frumvarp ríkisstjórnarinnar, þá vakti ég máls á því hvort ekki gæti verið skynsamlegt að friða ákveðin svæði, sérstök verndarsvæði þar sem fuglalíf væri viðkvæmt og þar sem margar tegundir anda héldu sig yfir vetrarmánuði og gerði grein fyrir tillögum mínum varðandi griðlönd og svæðisbundna friðun anda. Hæstv. umhverfisráðherra tók undir þetta og ég átti von á því að tillögur þar að lútandi yrðu lagðar fram sl. vor en þær hafa látið á sér standa og hlýt ég þess vegna að kalla eftir þeim nú.

Hér legg ég til að veiðitími rjúpunnar verði styttur, óheimilt sé að veiða rjúpu fyrr en 15. nóvember í stað 15. október eins og er nú. Samkvæmt núgildandi lögum má veiða rjúpur frá 15. október til 22. desember. Ég legg til að heimilt verði að veiða rjúpuna frá 15. nóvember einungis.

Ég vil í þessu sambandi, frú forseti, vekja athygli á því að samkvæmt reglugerð umhverfisráðherra er bannað að veiða rjúpu í landnámi Ingólfs Arnarsonar. Með öðrum orðum: Reykvíkingar vilja hafa rjúpuna í kringum sig óáreitta. Alls staðar annars staðar skilst mér að rjúpnaveiðar hafi verið heimilar. Þó hélt ég að viss skilningur hefði verið á því að nauðsynlegt væri að friða rjúpuna enn um sinn á Norðausturlandi. Ég vil líka benda á að í þeim tillögum sem lagðar voru fram af vísindamönnum var lagt til að rjúpnabannið stæði í fimm ár. Fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, stytti friðunartímann niður í þrjú ár og núverandi hæstv. umhverfisráðherra, hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir, niður í tvö ár. Fyrir þessu voru á hinn bóginn engin rök.

Ég hef hitt veiðimenn. Ég ætla ekki að halda því fram að ég sé kunnugur að þessu leyti um allt land, einungis norðan og austan. Þar hef ég hitt fjölmarga veiðimenn og við höfum rætt þessi mál. Það er upp og ofan hvað þeim sýnist. Sumir telja að rétt hafi verið að heimila veiðar á rjúpunni á ný síðasta haust. Aðrir töldu að það hefði átt að bíða enn um sinn, doka við. Allir voru þeir sammála um að nauðsynlegt sé að herða á minkaveiðunum. Tek ég undir það heils hugar en það er síður en svo að um það ríki einhver almenn gleði eða almenn sátt eða samkomulag að friðunartími rjúpunnar skuli hafa verið styttur um eitt ár, síður en svo.

Mér skilst að samkvæmt skoðanakönnun sem rjúpnaveiðimenn stóðu fyrir hafi veiðst milli 80 og 100 þús. rjúpur af stofni sem ekki var of stór. Ekki skal ég segja hvort þetta séu réttar tölur en mig minnir að frá ráðherra hafi verið talað um kvóta sem eru yfir 70 þús. rjúpur. Um það skal ég heldur ekkert segja hvort rétt sé. Þær upplýsingar hef ég eftir munnlegum heimildum. Aðalatriðið í mínu máli er auðvitað það að rjúpnatíminn er að mínum dómi of langur. Rétt er að stytta hann. Einnig þykir mér undarlegt að hin svæðisbundna friðun fugla sem ég mælti fyrir á síðasta þingi skuli einungis ná til kjördæmis Ingólfs Arnarsonar. Reykvíkingar eiga með öðrum orðum að hafa heimild til að fara um aðra fjórðunga hömlulaust til fuglaveiða en Norðlendingum hins vegar bannað að fara á sams konar veiðar á Reykjanesskaganum. Þetta er athyglisvert, umhugsunarefni, en auðvitað er eðlilegt að Reykvíkingar leggi upp úr því og fólk á þessu svæði hér að reyna að hafa fugla gæfa og stugga ekki við þeim. Ég skil það mjög vel en hið sama er að segja um menn í öðrum landsvæðum marga hverja, þeir leggja upp úr því að veiðitími fugla sé styttur.

Hér legg ég til að felld verði úr lögum heimild til að tína kríuegg sem er eðlilegt og loks vil ég í 20. gr. þar sem segir: ,,Andaregg og heiðagæsaregg, sem tekin eru samkvæmt ákvæðum þessarar málsgreinar, má hvorki bjóða til sölu, selja, kaupa, gefa né þiggja að gjöf.“ Ég vil að brott falli orðin „gefa né þiggja að gjöf.“ Það sé nóg að segja: ,,Má hvorki bjóða til sölu eða selja,“ þannig að menn geri sér þetta ekki að féþúfu þar sem mjög erfitt er að gera sér grein fyrir hvert sé innihald orðanna ,,gefa né þiggja að gjöf“ og hvað fyrir löggjafanum vakir með því að setja slík ákvæði í lög.

Herra forseti. Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. umhverfisnefndar.