132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Umhverfisvænar kröfur til fiskiskipaflotans.

451. mál
[14:04]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu og hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir svör hans. Ég heyri að hann hefur vissulega mikinn áhuga á þessum málum og þekkir vel til hins vistvæna búnaðar sem hér er til umræðu frá Marorku. Þetta er mjög mikilvægur þekkingariðnaður, það er alveg rétt, og þessi tæki sem þeir hafa hannað eru mikilvæg útflutningsafurð. Það er alveg rétt sem hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir benti á að mikilvægt er að halda þessu fyrirtæki í landinu því sóst er eftir því að kaupa það til annarra landa af því að við erum það mikið í fararbroddi.

Auðvitað getur hæstv. ráðherra beitt sér á fleiri vegu en það að skipa öllum að taka upp þennan búnað. Hann getur beitt sannfæringarkrafti sínum. Hann getur veitt ívilnanir, styrki o.s.frv. eins og hv. þm. Hlynur Hallsson benti á áðan. Það er hægt að fara ýmsar leiðir. Ég hvet hæstv. ráðherra til að nota þær leiðir sem hann hefur til að ýta undir þetta. Við erum að verða búin að fylla upp í kvóta okkar hvað varðar koldíoxíðmengun ef miðað er við kvótann sem við höfum í Kyoto-bókuninni. Við verðum að grípa til ráðstafana. Þarna er leið sem skilar árangri og styður um leið við mjög mikilvægt sprotafyrirtæki sem hefur hannað þennan búnað. Ég hvet því hæstv. ráðherra til að beita sér ekki bara með því að tala um þetta heldur á allan mögulegan hátt þannig að fyrirtækið verði hér áfram og við verðum með vistvænan fiskiskipaflota þegar upp er staðið.