132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Suðurlandsvegur.

473. mál
[14:39]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem komið hefur fram að það hefur margt jákvætt verið gert fyrir þessa vegi og að sjálfsögðu ber að þakka það sem vel er gert, að sjálfsögðu. Það er enginn að draga úr því, a.m.k. ekki stjórnarandstæðingar.

Það hefur verið gagnrýnt að við skulum hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að tvöfalda þennan veg. Ég sé í sjálfu sér ekkert athugavert við að stjórnarandstaðan geri það, það hlýtur á vissan hátt að leiða til þess að skapa ákveðna umræðu um þetta brýna mál, skapa ákveðinn þrýsting á stjórnvöld, á ríkisstjórnarflokkana að það verði eitthvað gert í þessum málum. Ég verð að segja að það eykur mér svolítið bjartsýni að hlusta á þá tvo stjórnarþingmenn sem hér hafa talað og síðan á hæstv. ráðherra þegar þeir tala um samgönguáætlun. Það eykur mér svolítið bjartsýni að heyra til þeirra því að mér sýnist að það sé alla vega einhver vilji fyrir því hjá stjórnarþingmönnum og ráðherrum að þetta verði sett inn í þessa áætlun og þá vonandi framarlega í hana.