132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Rekstur vöruhótela.

492. mál
[14:53]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Ársælssyni fyrir þessa fyrirspurn sem svo sannarlega er fram komin af ástæðu. Ég get fullvissað hæstv. samgönguráðherra um það að vegakerfið á Íslandi er ekki nægilega afkastamikið. Það er ekki að ófyrirsynju að við þingmenn landsbyggðarinnar ræðum hvað eftir annað vegamál í þessum sal því að við erum stöðugt á ferðinni á vegum landsins, og mætum m.a. þessum hryllilegu flutningabílum á jafnvel 100 kílómetra hraða á vegum sem eru missignir og ómögulegir og hálfónýtir einmitt vegna þess hvernig þessir sömu flutningabílar fara með vegina. Ég álít að það sé brýnt verkefni fyrir hæstv. samgönguráðherra að kanna allar hugsanlegar leiðir til að létta þessum þungaflutningi af þjóðvegum landsins, bæði til að hlífa vegunum og ekki síst til að draga úr hættu sem öðrum vegfarendum er búin af völdum flutninganna.