132. löggjafarþing — 61. fundur,  8. feb. 2006.

Fyrirframgreiðslur námslána.

438. mál
[15:26]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Örstutt. Það er alveg ljóst að ef við hverfum aftur til áranna í upphafi 10. áratugsins 1990–1991–1992 þá var fjárhagsástand sjóðsins afar bágborið. Menn muna það eða kannski vilja sumir ekki muna það, að þá þurfti að grípa til ákveðinna aðgerða til að styrkja fjárhagslegan grundvöll sjóðsins. Til hvers? Jú, til að hann gæti staðið fyrir örum vexti á háskólastiginu, staðið undir því að lána eins og hann gerir með jafnmyndarlegum hætti að hluta til lán og eins og ég kom inn á áðan, til þess að hann geti styrkt námsmenn með jafnágætum hætti og hann gerir nú.

Auðvitað eru reglur sjóðsins sífellt til endurskoðunar. En ég held að það sé ekki rétt í dag að fara þá leið sem þingmenn eru að hvetja mig til sem mundi þýða árlegan kostnað um 180–200 millj. kr. til þess eins að fyrirframgreiða lánin þegar samkomulag hefur náðst m.a. við hinn frjálsa markað um ákveðnar fyrirgreiðslur á því sviði. Þetta fyrirkomulag er gott í dag. Ég held að við ættum frekar að einbeita okkur að því að stuðla að öðrum hagsbótum en akkúrat þessum fyrir lánþega LÍN. Þetta er ekki forgangsverkefni að mínu mati.