132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[12:08]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi tryggingagjaldið. Þegar sú umræða var hér uppi, líklega um 2002, um lækkun á tekjuskatti til fyrirtækja og hækkun á tryggingagjaldi var margsinnis á það bent af hálfu Samfylkingarinnar hvernig þetta kæmi niður á ýmsum sveitarfélögum úti á landi. Ég man ekki betur en að tekið hafi t.d. verið sérstakt dæmi af Vestmannaeyjabæ í því sambandi. Fengin var sérstök úttekt eða mat frá ríkisendurskoðanda varðandi þetta mál, sem sýndi miðað við þáverandi aðstæður að fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu mundu hagnast um 2,4 milljarða vegna þessarar breytingar en fyrirtæki, og þá var landið allt undir að öðru leyti, um 74 milljónir. Síðan væru einstök byggðarlög þar sem menn borguðu umtalsvert meira í skatt eða opinber gjöld, getum við sagt, í tengslum við fyrirtækjarekstur eftir þessa breytingu en áður.

Aðeins varðandi vaxtarsamningana. Ég er alls ekki að draga úr mikilvægi vaxtarsamninganna þar sem þeir eiga við en þeir eiga bara ekki alls staðar við. Ég geri ráð fyrir að þeir eigi ágætlega við á Eyjafjarðarsvæðinu. Þar eru öflug, stöndug fyrirtæki, þar eru háskólastofnanir, þar er rannsóknarumhverfi og þar er hægt að gera mjög mikið í þessum efnum. Ég get líka ímyndað mér að þeir eigi ágætlega við á Miðausturlandi við þær aðstæður sem þar eru núna og við það öfluga umhverfi sem þar er. En ég held að á öðrum svæðum eigi þeir síður við og þar verði menn að grípa til annars konar aðgerða. Ég geri ráð fyrir að þingmaðurinn, sem hér kom í andsvar, sé ekki mjög sáttur við þá þróun hvernig fólki hefur verið að fækka á Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði, á þessu svæði sem stendur honum nú nokkuð nærri. Ég held að hann ætti að velta því fyrir sér hvort ekki væri ráðlegt að grípa þar til einhverra varnaraðgerða í stað þess að tala einvörðungu um vaxtarsamning í Eyjafirði.