132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[14:27]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svo að það valdi ekki misskilningi skal hér með byrjað á að þakka fyrir það sem vel hefur verið gert. Það hefur aldrei staðið á mér að styðja góð málefni og ég hef iðulega sagt það héðan úr þessum ræðustól að ef góð málefni eru á ferðinni verða þau studd af Frjálslynda flokknum, hvort sem þau koma frá ríkisstjórn eða stjórnarandstöðu.

Við gleðjumst yfir því, ég og hv. þm. Birkir J. Jónsson, þegar ný störf koma heim í hérað og fögnum því. Hins vegar finnst mér ekki að við þurfum endilega að vera á neinum biðilsbuxum eftir því vegna þess að í skýrslu Vífils Karlssonar var sýnt fram á það að af 27% af fjármunum sem yrðu til á landsbyggðinni af skatttekjum rynnu aðeins 15% aftur út á land. Við eigum ekkert alltaf að þurfa að vera í bónbjargastöðu við að fá störf. Við eigum heimtingu á því að fá hluta af opinberum störfum út á land.

Ég fagna því virkilega þegar það tekst.