132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[18:29]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það væri sérkennilegt ef ekki yrðu einhver viðbrögð við því að sprautaði tugum ef ekki hundruðum milljarða í fjárfestingar á ákveðnum landshluta. Ætla mætti að menn mundu sjá þess merki í hagkerfinu á viðkomandi svæðum. Þó það nú væri. Ég var hins vegar ekki alveg að spyrja um þetta heldur hitt, hvort þau markmið að viðhalda byggð í landinu og efla byggð, þá vænti ég byggð Íslendinga á Austurlandi, hefði í raun ekki að misfarist.

Hver er skoðun þingmannsins á þessum tölum? Ég verð að segja að mér var illa brugðið þegar ég skoðaði tölurnar á vef Hagstofunnar. Ég hygg að þetta hafi komið illa við hæstv. byggðamálaráðherra, Valgerði Sverrisdóttur. Hún var mjög pirruð þegar ég tók þetta fyrir í ræðu minni. Því miður verð ég að lýsa yfir vonbrigðum með að hún skuli ekki vera í þingsalnum. Hún lét sig hverfa áðan, hvað sem því olli.

Hitt er annað mál, virðulegi forseti, að ég tek eftir því að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson forðast að svara seinni lið fyrirspurnar minnar, varðandi byggðaþróun á Vestfjörðum. Þar eru líka nýjar tölur frá Hagstofunni sem má t.d. sjá á vef Bæjarins besta í dag. Ég reikna með að þingmaðurinn hafi lesið þá frétt. En þar er fyrirsögnin: „Brottfluttir umfram aðflutta á Vestfjörðum, 185 manns“. Þegar maður skoðar þær tölur í smáatriðum sér maður að þar er á ferðinni gríðarleg blóðtaka í eintökum byggðum, meira að segja í heimabæ þingmannsins, Bolungarvík. Þar eru brottfluttir 17 umfram aðflutta. Mér finnst það mjög alvarlegur hlutur fyrir jafnblómlegan og ágætan stað og Bolungarvík. Það væri gaman að heyra frá hv. þingmanni hvort þetta gæti ekki átt rætur sínar að rekja til stjórnvaldsaðgerða sem hann hefur staðið að sem einn af þingmönnum stjórnarliðsins.