132. löggjafarþing — 63. fundur,  9. feb. 2006.

Stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[19:58]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þær ágætu ábendingar sem hér hafa komið fram. Það er auðvitað rétt hjá hv. þingmanni að í þessari ágætu skýrslu eru ýmsar tillögur sem hefði verið eðlilegt að sjá í þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir varðandi nýja byggðaáætlun. En af einhverjum ástæðum, væntanlega vegna þess að ekki hefur náðst um það pólitísk samstaða, eins og hæstv. iðnaðarráðherra kallar það yfirleitt þegar samstarfsflokkurinn stoppar ágætar tillögur hæstv. ráðherra, þá geri ég ráð fyrir að það sé skýringin. Ég hef fulla trú á því að hæstv. iðnaðarráðherra hafi haft hug á að ganga eitthvað í þessa átt en ekki náð því fram og um það hafi ekki orðið pólitísk samstaða og við það sitji. Á meðan það er eru byggðaáætlanir því miður svo veikar sem raun ber vitni og munu þar af leiðandi ekki skila eins góðum árangri og ella hefði verið hægt sérstaklega gagnvart þeim svæðum sem við höfum hér verið að ræða.

Það er rétt hjá hv. þingmanni, sem bætti því við varðandi möguleika á leiðum, að auka bæri umsvif hins opinbera. Þetta er auðvitað hárrétt og ýmsar þjóðir hafa gert það. Ég endurtek það sem ég sagði áðan að það er eiginlega alveg með ólíkindum hvað við virðumst eiga erfitt með að læra af öðrum þjóðum sem ná árangri á þessu sviði. Skattaívilnanir eru alþekktar líka. Það er því mjög sérkennilegt hvað það gengur illa hjá okkur að taka upp aðferðir sem hafa skilað árangri.

Það er aðeins eitt sem hv. þingmaður nefndi úr skýrslunni sem er svona spurning en það er varðandi hömlur á flutningi veiðiheimilda. Ég er ansi hræddur um, frú forseti, að það sé kannski orðið of seint. Ég held að viskulegra hefði verið að sigla því kannski örlítið hægar en við gerðum þannig að afleiðingarnar væru ekki eins miklar og raun ber vitni, sérstaklega í ljósi þess að stjórnvöld hafa ekki undirbúið þessar breytingar. Það er auðvitað meginvandamálið. Þegar stjórnvöld eru búin að taka ákvörðun um að fara þessa leið og megnið af þessu er fyrirséð, að hafa þá ekki (Forseti hringir.) gripið til neinna aðgerða til að milda afleiðingarnar.