132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Ummæli ráðherra í umræðu um byggðamál.

[10:40]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vísa því hreinlega út í hafsauga að þingmenn hafi verið með einhverja neikvæða umræðu, raus eða niðurrif í umræðum í gær. Hér fóru fram mjög góðar og málefnalegar umræður um byggðamál, að vísu nánast eingöngu af hendi stjórnarandstæðinga. Það vildi einhvern veginn svo einkennilega til að mjög fáir stjórnarliðar sáu sér fært að taka þátt í þessum umræðum og það kann að vera að gremja hæstv. byggðamálaráðherra sé einmitt til komin vegna þess. Það var enginn til staðar í stjórnarliðinu til að hjálpa henni að verjast í mjög erfiðri stöðu, örfáir þingmenn. Ég held að aðeins einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins (Gripið fram í.) hafi flutt ræðu í gær, nokkrir komu síðan upp í andsvör. Þetta gerðist allt fyrri hluta dags, síðan hurfu þeir allir eins og dögg fyrir sólu. Það voru hér örfáir þingmenn Framsóknarflokksins og síðan ekki söguna meir. Það er verið að ráðast á stjórnarandstöðuna fyrir að halda uppi góðri og málefnalegri umræðu um málefni landsbyggðarinnar, mjög góðri umræðu þar sem við bentum bæði á það sem miður hefur farið en við bentum líka á leiðir til úrbóta. Ég átti hér t.d. ágætar rökræður við hv. þingmann Kristin H. Gunnarsson einmitt um það hvað við gætum gert til að lagfæra stöðuna til að mynda úti í Vestmannaeyjum. Við töluðum um sjávarútvegsmál, við töluðum um samgöngumál, þetta var mjög góð og gefandi umræða. Og það er hreinlega rangt og ósatt hjá hæstv. byggðamálaráðherra að halda því fram að hér höfum við verið með eitthvert skítkast út í landsbyggðarfólk. Heyr á endemi! Ég veit ekki betur en ég hafi í báðum ræðum mínum einmitt bent á þá miklu þversögn sem felst í því að mörgum byggðum víða um land virðist vera að blæða út í okkar fallega, góða og ríka landi. Er það þá ekki vegna þess að einhverjir hljóta að hafa brugðist í störfum sínum, að stjórnvöld standi kannski ekki sína plikt? Hvernig stendur á því til að mynda að fólki fækkar á Austurlandi miðað við allar þær fjárfestingar sem þar hafa átt sér stað? Hvað með Vestfirði og síðan hvað með Vestmannaeyjar? Það er eitthvað mikið að en það er ekki okkur í stjórnarandstöðunni þar um að kenna.