132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Aukatekjur ríkissjóðs.

403. mál
[15:02]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var svolítið skemmtilegt andsvar. Það vill nú þannig til að það er búið að kalla eftir því við hæstv. fjármálaráðherra í umræðunni að fá upplýst hver kostnaðurinn er af þeirri þjónustu sem um ræðir í frumvarpi hæstv. ráðherra, en ekki hafa fengist svör við því til að bera saman, eins og ég sagði í upphafi máls míns, hvort verið sé að færa gjöldin til þess kostnaðar sem raunverulega er fyrir hendi eða hvort verið er að hækka þessi gjöld bara sisvona án þess að geta sýnt fram á hver kostnaðurinn er.

Ef kostnaðurinn við útgáfu dvalarleyfa og ef kostnaðurinn við að taka á móti umsókn um íslenskan ríkisborgararétt er þetta hár finnst mér eðlilegt og sjálfsagt að við skoðum hvort gjaldið eigi ekki að vera það sem kostnaðurinn er. Þá geri ég kröfu um að við gerum það í öllum gjöldum í aukatekjum ríkissjóðs, öllum þeim tekjum sem ríkissjóður fær samkvæmt frumvarpi til laga um aukatekjur, því eins og bent hefur verið á nú í umræðunni þegar við höfum verið að ræða um aukatekjur ríkissjóðs, þá er oft á tíðum verulegt misræmi milli kostnaðar á þeirri þjónustu sem verið er að veita og þeirra tekna sem ríkið hefur af viðkomandi þjónustu.

Mér þætti vænt um ef hæstv. fjármálaráðherra gæti sagt okkur hér á eftir heildarkostnaðinn við frumvarp sitt og einnig þætti mér vænt um, frú forseti, ef hv. þm. Birgir Ármannsson gæti sagt okkur hver heildarkostnaðurinn væri við það frumvarp sem þessir fimm ungu þingmenn Sjálfstæðisflokksins leggja hér fram, af hve miklum tekjum ríkissjóður yrði, yrði það að lögum.

Varðandi það að það sé skattur á nýsköpun að það kosti 165 þús. kr. að skrá fyrirtæki, nýjan lögaðila, félag sem ætlar sér í einhverja starfsemi, þá á ég erfitt með að sjá það. Félag sem ekki getur sett 165 þús. kr. í að verða til, í að skrá sig og verða lögaðili, ég velti fyrir mér hvaða tilefni er þá til að stofna slíkt félag og hvaða burði hefur slíkt félag til að hefja starfsemi?