132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Þjóðarblóm Íslendinga.

455. mál
[15:28]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir vænt um þá ræktarsemi sem hæstv. landbúnaðarráðherra sýnir arfleifð Þjóðvaka og þess hluta af sögu jafnaðarmanna, sem hann gerir svo sannarlega með þessari tillögu. En um leið vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji það ekki misráðið, að hugmyndin um þjóðarblómið sé andvana fædd, að velja blóm sem hefur verið merki og minnir sterkt á tiltekna stjórnmálahreyfingu og umbrotaöfl í stjórnmálasögunni. Er þá ekki hætt við að merkið skipi fólki frekar í fylkingar en að það sameini það, sem er þó markmið tillögunnar? Rétt eins og hann legði til að kornax Framsóknarflokksins eða rós jafnaðarmanna yrði sameiningartákn, sem Bretar hafa reyndar valið fyrir löngu síðan sem þjóðarblóm sitt. Er ekki misráðið að velja blóm sem minnir svo mjög á eina fylkingu í landinu frekar en á aðra? Væri ekki snjallara að velja blóm eins og gleym mér ei sem hefur enga slíka skírskotun? Ég held að hún hafi skorað ágætlega í skoðanakönnuninni sem hæstv. ráðherra vék að hér áðan. En það vinnur enginn fullnaðarsigra í skoðanakönnunum. Þær eru leiðbeinandi. Ég vildi því varpa því til hæstv. landbúnaðarráðherra hvort hann sé ekki að kæfa þjóðarblómið sitt strax í upphafi með því að leggja til blóm sem tengist einum anga stjórnmálasögunnar frekar en öðrum. Er það ekki svipað því og að reyna að koma því hér í gegn að framsóknaraxið verði þjóðarblóm Íslendinga?