132. löggjafarþing — 64. fundur,  10. feb. 2006.

Umferðarlög.

503. mál
[16:45]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Vegna þessara orða æski ég þess að fá skýringu hjá ráðherranum á ofurlitlu atriði. Hér er verið að banna akstur ökutækja og hjóla og útreiðar á hrossum eftir að hafa neytt annarra vímuefna sem hér tíðkast en áfengis. En tók ég rétt eftir að um væri að ræða algjört bann við akstri undir áhrifum þeirra efna, þvert gegn því sem tíðkast um áfengi, en þar er sem sé leyfð ákveðin neysla? Mér sýnist í frumvarpinu að verið sé að stilla svo til að refsing fyrir áfengisáhrif undir stýri stillist meira eftir því hversu mikils áfengis hefur verið neytt, sem í mínum augum getur átt sér sanngjarnar skýringar en getur líka leitt til þess að menn telji að ofurlítil áfengisáhrif séu þó alla vega miklu skárri en mikil áfengisáhrif og styðji þá því miður nokkuð almenna skoðun í landinu að það sé allt í lagi að aka ef ekki eftir einn þá eftir hálfan. Sem veldur því að á ákveðnum tímum eru ökumenn í raun og veru undir áhrifum áfengis þó að í litlum mæli sé.